Kvennakór Kópavogs heldur vortónleika sunnudaginn 26. apríl, kl. 16:00, í Hásölum við Hafnarfjarðarkirkju.
Kórinn ákvað í haust að fara nýjar leiðir varðandi tónleikahald. Kórinn er orðinn sjö ára og okkur fannst vera komin tími til þess að breyta út af vananum og fara út fyrir “þæginda-svæðið” okkar með því að brjóta svolítið upp þá ramma sem við höfum haldið okkur við undanfarin ár.
Tekin var sú ákvörðun að vera hvorki með jólatónleika eða vortónleika í maí, heldur hafa eina stærri tónleika í mars-apríl og taka þá fyrir eitthvert þema. Ákváðum við að syngja eingöngu lög úr söngleikjum ýmisskonar. Lögin eru mjög ólík, frá ólíkum tímum, sum í syrpu og önnur stök. Efnisskráin er mikið til á ensku en nokkur lögin hafa þó verið þýdd á íslensku og eitt franskt lag flýtur einnig með.
Þetta var allt ákveðið fyrir kreppu en kannski höfum við fundið á okkur að tíminn framundan yrði þungur mörgum – því dagskráin er einstaklega hressileg og engum ætti að leiðast. Sagt er að söngur létti lundina og það höfum við kórkonur fengið finna í vetur. Áhyggjur fjúka burt um leið og við setjumst niður og syngjum.
Að syngja söngleiki á ensku reyndist ekki næg ögrun því við höfum einnig stigið niður af kórpöllunum og bætt smá hreyfingum við sönginn. Það getur nú verið vandasamt stundum að samhæfa söng og hreyfingar.
Með okkur eru tvær söngkonur sem munu syngja á tónleikunum, annars vegar Kristjana Stefánsdóttir og svo kórstjórinn okkar Natalía Chow Hewlett en auk þeirra munu nokkrar konur í kórnum stíga sín fyrstu spor í einsöng, dúettum, tríóum og kvartettum.
Miðaverð í forsölu:
2000 kr hjá kórkonum eða hafa samband í póstfangið kvennakorkopavogs(hjá)gmail.com
Miðverð við inngang:
2300 kr, 1500 kr fyrir aldraða og öryrkja, frítt fyrir börn 16 ára og yngri.
Innifalið í miðaverði eru léttar veitingar í hléi.
Hægt er að fá með nánari upplýsingar um tónleikana á vefsetri Kvennakórs Kópavogs.