Fimmtudaginn 1. desember kl. 20:00 heldur Kvennakór Hafnarfjarðar aðventutónleika í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði.
Kvennakór Hafnarfjarðar var stofnaður árið 1995 og er í dag skipaður tæplega 50 konum. Stjórnandi kórsins frá árinu 2007 er Erna Guðmundsdóttir og píanóleikari er Antonia Hevesi.
Á efnisskrá kórsins að þessu sinni eru bæði íslensk og erlend jólalög og kirkjulegir söngvar sem spanna langt tímabil í tónlistarsögunni. Má þar nefna trúarlega tónlist frá 15. öld auk frumflutnings á sjö tékkneskum jólalögum í útsetningu tékkneska tónskáldsins Jiri Ropek. Þrjú þessara laga hefur Hildigunnur Rúnarsdóttir raddsett sérstaklega fyrir Kvennakór Hafnarfjarðar.
Forsala aðgöngumiða er hjá kórkonum en einnig verða seldir miðar við innganginn. Miðaverð er kr. 2000.
Upplýsingar um tónleikana og kórinn er einnig að finna á heimasíðu Kvennakórs Hafnarfjarðar.