Menningar- og safnanefnd Garðabæjar tilnefnir ár hvert "Bæjarlistamann Garðabæjar” og að þessu sinni hlotnaðist Ingibjörgu Guðjónsdóttur, sópransöngkonu og kórstjóra Kvennakórs Garðabæjar sá heiður.
Námsferill
Frá unga aldri hefur Ingibjörg verið viðriðin söng og kórstarf með einum eða öðrum hætti. Hún söng með Skólakór Garðabæjar öll sín grunnskólaár en sautján ára gömul hóf hún söngnám við Tónlistarskóla Garðabæjar. Aðeins nítján ára gömul sigraði Ingibjörg Söngkeppni Sjónvarpsins og ávann sér rétt til þátttöku í hinni virtu söngkeppni Cardiff Singer of the World.
Söngur
Framhaldsnám stundaði hún í Bandaríkjunum við Indiana University. Ingibjörg hefur haldið fjölda einsöngstónleika, tekið þátt í tónlistarhátíðum og verið einsöngvari með sinfóníuhljómsveitum, kammersveitum og kórum, bæði hér á landi og erlendis. Hún hefur sungið á íslensku óperusviði en einnig verið iðin við flutning samtímatónlistar og frumflutt m.a. verk eftir þau Karólínu Eiríksdóttur, Hauk Tómasson, Þorkel Sigurbjörnsson og Þórð Magnússon.
Útgáfa
Ingibjörg hefur gefið út tvær geislaplötur; Óperuaríur (2005) með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og Ó Ó Ingibjörg (2007) þar sem hún syngur íslensk sönglög í frumlegum búningi með bræðum sínum, djasstónlistarmönnunum Óskari, saxofónleikara og Ómari, gítarleikara.
Ingibjörg stofnaði Íslenska kvennakórinn í Kaupmannahöfn
Um tíma starfaði Ingibjörg í Kaupmannahöfn en auk fjölbreyttra söngverkefna þar í borg, stofnaði hún Íslenska kvennakórinn í Kaupmannahöfn sem hún stjórnaði í tvö ár.
Ingibjörg er söngkennari við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar sem hún stofnaði árið 2000. Einnig er hún listrænn stjórnandi tónleikaraðarinnar Þriðjudagsklassík í Garðabæ. Ingibjörg er gift Andra Kárasyni og eiga þau einn son Daníel Guðjón Andrason.
Frekari upplýsingar
Allar frekari upplýsingar um Kvennakór Garðabæjar veitir fjölmiðlafulltrúi kórsins
Ólafía Einarsdóttir í síma: 895 8388
Netfang Kvennakórs Garðabæjar: kvennakorgb@gmail.com
Vefsetur Kvennakórs Garðabæjar