Í ár verður Jórukórinn á Selfossi 20 ára og mun halda upp á afmælið með stæl. ,,Við ætlum að efna til stórra og kröftugra tónleika í íþróttahúsi Vallaskóla þann 7. maí kl. 16:00. Þemað verður ABBA og er Stefán Þorleifsson, stjórnandinn okkar, búinn að útsetja fullt af lögum af tilefninu." segir Laufey Ósk formaður Jórukórsins. ,,Þetta verða engir venjulegir kórtónleikar. Við erum búnar að panta hljóðnema fyrir hverja konu, ljósasýningu og hljóðkerfi hjá EB kerfum. Einnig verður með okkur Jóhanna Guðrún söngkona og sex manna hljómsveit sem mun ekkert gefa eftir." Á dagskránni verður, auk ABBA, einnig brot af því besta frá sögu kórsins. Forsala miða er hafin á Verónu hársnyrtistofu á Selfossi og hjá kórkonum. ,,Okkur þætti vænt um að fá sem flesta til að fagna með okkur."