Kvennakór Garðabæjar býður til tónlistarkvöldsins „Djass á Góu“ í gamla Hagkaupshúsinu á Garðatorgi.
Fimmtudaginn 25. febrúar, kl. 20.00, mun Kvennakór Garðabæjar efna til tónlistarveislu í gamla Hagkaupshúsinu á Garðatorgi. Á efnisskránni eru þekktar perlur, flestar íslenskar, sem færðar verða í líflegan djassbúning. Kaffihúsastemning með kertaljósum verður ríkjandi og léttleiki alls ráðandi. Í boði verða veitingar á vægu verði en aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Ásamt kórnum koma fram fjórir af færustu djassleikurum landsins; bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, Matthías Hemstock og Tómas R. Einarsson. Það má segja að verið sé að endurtaka einstaklega skemmtilega tónleika kórsins frá vorinu 2006 þegar fyrrnefndir djass snillingar spiluðu með kórnum og heilluðu áheyrendur og kórkonur með spilamennsku sinni og líflegri framkomu.
Er það von Kvennakórs Garðabæjar og stjórnanda, Ingibjargar Guðjónsdóttur, að tónlistarunnendur fjölmenni í gamla Hagkaupshúsið á Garðatorgi fimmtudaginn 25. febrúar og fagni með kórnum á léttum nótum, á tíu ára starfsafmæli.