Kvennakór Garðabæjar afhendir BUGL fjárstyrk
Sala jólamerkis Kvennakórs Garðabæjar hófst í byrjun desember síðast liðinn og var hluti ágóðans ætlaður Barna- og unglingadeild LSH/BUGL. Þegar formaður kórsins, Kolbrún Pálsdóttir, hafði samband við BUGL og tilkynnti þessa ákvörðun var kórkonum boðið að koma og skoða deildina sem er til húsa við Dalbraut.
Fjölþætt starf BUGL
Í janúar lok mætti hluti kórkvenna ásamt Ingibjörgu Guðjónsdóttur kórstjóra í húsakynni BUGL. Þar tóku Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir, yfirlæknir BUGL og Linda Kristmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri BUGL á móti hópnum og leiddu um húsakynnin og sögðu frá starfseminni.
Hluti deildarinnar er í nýju glæsilegu húsi með góðri aðstöðu til að taka á móti börnunum en eldri hlutinn hefur verið gerður fallega upp. Þarna er bæði göngudeild og legudeild og jafnvel rými til innlagnar fyrir heila fjölskyldu ef þörf er á því. Deildin er fallega skreytt og greinilegt að þar er hugsun að baki hverju handtaki. Til að mynda hefur sýning frá Gerðubergi sem byggð er á norrænu goðafræðinni verið sett upp þarna og geta börnin notið hennar.
Takk fyrir stuðninginn
Þarna fer augljóslega fram mikið og gott starf og er það kórkonum Kvennakórs Garðabæjar einstök ánægja að hafa getað lagt sitt á vogarskálarnar fyrir tilstuðlan þeirra sem keyptu jólamerkið. Við þökkum ykkur öllum stuðninginn.
Styrkurinn að góðum notum
Að leiðsögn og fræðslu lokinni afhentu Kolbrún formaður og Ingibjörg kórstjóri Guðrúnu Bryndísi og Lindu styrkinn og sögðu þær hann koma að góðum notum. Í lokin var kórkonum boðið upp á veitingar, spjall og spurningar og var dagurinn hinn ánægjulegasti og þökkum við hjartanlega fyrir hlýjar móttökur og óskum BUGL alls hins besta.
Framundan hjá Kvennakór Garðabæjar
23. febrúar: Söngur í konudagsmessu í Vídalínskirkju
6. mars: Góugleði Kvennakórs Garðabæjar í Tónlistarskóla Garðabæjar
Apríl: Söngur á jazzhátíð Garðabæjar
9.-11. maí: Landsmót íslenskra kvennakóra á Akureyri
Maí: Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar
Kvennakór Garðabæjar er á facebook
Hægt er að fylgjast með starfssemi kórsins á facebook síðu Kvennakórs Garðabæjar
Myndatexti
Afhending styrks Kvennakórs Garðabæjar til BUGL.
Frá vinstri: Kolbrún Pálsdóttir, formaður Kvennakórs Garðabæjar,
Guðrún Bryndís Guðmundsdóttir yfirlæknir BUGL,
Linda Kristmundsdóttir hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri BUGL og
Ingibjörg Guðjónsdóttir kórstjóri Kvennakórs Garðabæjar.