Nú fer brátt í hönd sjötta kóramótið þar sem Norðurlönd og Baltnesku löndin mætast og leggja saman krafta sína. Mót þetta, Kórahátíð Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna (The Nordic – Baltic Choral Festival 2010) var fyrst haldið í Riga í Lettlandi árið 1995 og hefur síðan verið haldið fjórum sinnum í Svíþjóð, Noregi, Litháen og Eistlandi.
Sjötta Kórahátíð Norðurlandanna og Eystrasaltslandanna verður haldin í Reykjavík dagana 17. - 22. ágúst. Kvennakór Reykjavíkur lætur sig ekki vanta og hefjast æfingar hjá kórnum 10. ágúst.
Áhugamannakórar jafnt sem atvinnukórar mæta til leiks á þessu kóramóti, góðir fulltrúar landa sinna. Hátt í 1800 þátttakendur hafa boðað komu sína og margt spennandi verður í boði. Vinnuhópar með 100-700 þátttakendum verða að störfum á mótinu og munu flytja afrakstur vinnu sinnar á tónleikum.
Kórarnir koma einnig víða fram, 2-4 syngja á sömu tónleikum. Boðið verður upp á hádegistónleika og kvöldtónleika að ógleymdum tónleikum á Menningarnótt Reykjavíkurborgar. Allir kórarnir munu svo syngja saman á lokahnykk mótsins og verður tilkomumikið að sjá og heyra í hátt í 1800 manna kór.
Lokatónleikar verða haldnir í Laugardalshöll 21. ágúst kl. 19.30. Samtals verða flutt 26 verk þetta lokakvöld.
Þegar kóramótinu lýkur hefst vetrarstarf Kvennakórs Reykjavíkur. Æfingar verða haldnar í húsnæði Reykjavíkurborgar að Vitatorgi eins og tvo undanfarna vetur. Nánar verður tilkynnt um tilhögun æfingatíma síðar. Í upphafi vetrarstarfs viljum við gjarnan sjá nýjar konur bætast í hópinn og bjóðum þær alltaf velkomnar. Áhugasamar konur eru hvattar til að hafa samband.
Smelltu hérna til að skoða heimasíðu The Nordic – Baltic Choral Festival