Sönghúsið Domus vox fagnar sumarkomu með maraþon sönghelgi og kaffisölu laugardaginn 9. maí og sunnudaginn 10. maí kl. 13 að Laugavegi 116. Boðið verður upp á söng og gleði, kaffi og nýbakaðar vöfflur. Stúlknakór Reykjavíkur verður með nytjamarkað til styrktar Ítalíuferð kórsins í júní 2009.
Kórar hússins, Gospelsystur Reykjavíkur, Stúlknakór Reykjavíkur og Vox feminae flytja uppáhaldslögin sín. Einsöngvarar úr röðum kórfélaga og ungar söngkonur sem stunda söngnám við skólann flytja nokkur lög. Þá munu Sigrún Hjálmtýsdóttir og Hanna Björk Guðjónsdóttir sópransöngkonur gleðja gesti með söng sínum og nærveru.
Hljómskálakvintettinn flytur ásamt Vox feminae nokkur lög af væntanlegum geisladiski. Píanisti helgarinnar er Marco Beluzzi.
Listrænn stjórnandi söngmaraþonsins er Margrét J. Pálmadóttir.