Kvennakór Suðurnesja heldur vortónleika í Bíósal Duushúsa mánudaginn 18. maí og miðvikudaginn 20. maí kl. 20:00. Efnisskráin er fjölbreytt og skemmtileg en á henni má finna mambó, tangó, djass, ensk og amerísk þjóðlög og íslensk dægurlög.
Stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir. Hljóðfæraleikarar eru Geirþrúður Fanney Bogadóttir á píanó og Birna Rúnarsdóttir á þverflautu.
Kórkonur héldu til Minneapolis í Bandaríkjunum síðasta haust og tóku þátt í Hátíð Leifs Eiríkssonar sem er samnorræn menningarhátíð, en mikið af innflytjendum frá öllum Norðurlöndum búa á svæðinu. Þar flutti kórinn íslenska tónlist; þjóðlög, dægurlög o.fl. Nú skiptir kórinn um gír, að vísu fá nokkur íslensk lög að fljóta með í byrjun auk þess sem þjóðlög og dægurlög frá Bretlandi og Ameríku verða flutt. Á seinni hluta tónleikanna tekur síðan við suðræn sveifla með mambó og tangó.
Miðaverð er kr. 2.500 við innganginn en kr. 2.000 í forsölu. Miðasala er hjá kórfélögum, á kvennakorsudurnesja@gmail.com og við innganginn.