Vox feminae heldur tónleika í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 24. október kl. 20:30. Listrænn stjórnandi er að vanda Margrét J. Pálmadóttir kórstjóri sem nú tvinnar saman spuna tónlistarmannanna Sigurðar Flosasonar á saxófón og Gunnars Gunnarssonar á orgel við flutning kvennakórsins Vox feminae, auk auðfúsu gesta úr Stúlknakór Reykjavíkur, á trúarlegum verkum. Tónleikarnir eru helgaðir minningu látinna, kærkomin kyrrðarstund umvafin fagurri tónlist.
Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt, hana prýða jafnt verk 16. aldar tónskáldanna Orlando de Lasso og Tomás Luis de Victoria sem verk eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson og Kristján Kristjánsson. Vox feminae hefur löngum haft heilaga guðsmóður í hávegum, að þessu sinni verða flutt verk helguð Ave María m.a. eftir tónskáldin Biebl, Schubert og Sigvalda Kaldalóns. Hljóðfæraskipan og flutningur tónlistarinnar er með nýstárlegum hætti þar sem spuni ræður ríkjum í framsetningu úrvalshljóðfæraleikara, kórs og kórstjóra.
Vetur gengur brátt í garð, ljósin lifna á næturhimni meðan jörðin sefur snævi þakin. Allra heilagra messa er Vox feminae kær, Margréti J. Pálmadóttur hefur ævinlega tekist að laða fram angurblíða stemningu á tónleikum sem kórinn hefur haldið á þessum árstíma. Unnendum trúarlegrar tónlistar sem samin hefur verið til að veita huggun harmi gegn gefst hér einstakt tækifæri til að eiga ljúfa stund í Hallgrímskirkju.