Nú höfum við í Jórukórnum á Selfossi tekið upp þráðinn eftir gott sumarfrí og hafið æfingar undir styrkri stjórn Helenu Káradóttur sem tók aftur við kórnum haustið 2009 eftir 5 ára hlé. En verkefni vetrarins eru ekki bara söngurinn, einnig erum við með það spennandi verkefni að undirbúa Landsmótið íslenskra kvennakóra næsta vor. Þetta er krefjandi verkefni sem við setjum allan okkar metnað í og hlökkum til að taka á móti ykkur hér á Selfossi 29. apríl – 1. maí 2011. Við erum sem sagt að vinna á fullu að skipulagningu mótsins, vinnuhóparnir eru að verða klárir, landmótslagið er í vinnslu og sameiginlegu lögin eru að komast á hreint.
Við í landsmótsnefndinni munum mæta á aðalfund Gígjunnar 23. október og vera þar með kynningu á mótinu. Það væri gott að fá upplýsingar, annað hvort á fundinum eða fljótlega eftir hann, um hvaða kórar stefna að því að mæta á mótið. Endanleg skráning og greiðsla staðfestingagjalds fer síðan fram síðar í vetur. Nú þegar hafa nokkrir kórar haft samband og tilkynnt þátttöku. Þetta lítur því alls saman mjög vel út.
Að lokum viljum við benda á nýtt gistiheimili hér á Selfossi sem tekur um 60 manns. Það er staðsett við aðalgötu bæjarins og er hægt að finna upplýsingar um það á þessu vefsetri. Við höfum samið við eigandann að gisting í upp á búnu rúmi verði 3.000 kr fyrir konu og morgunverður á 1.000 kr.