Kvennakór Garðabæjar er nú á sínu tíunda starfsári og eru því ýmsir fastir viðburðir starfsársins nokkru stærri í sniðum en ella. Af því tilefni þótti við hæfi að efna til sameiginlegra aðventutónleika með nágrannakór og varð Kvennakór Hafnarfjarðar fúslega við beiðni Kvennakórs Garðabæjar um sameiginlega tónleika í tveimur kirkjum, Digraneskirku og Víðistaðakirkju, í byrjun aðventu.
Kirkjurnar voru þéttsetnar og tónleikunum ákaflega vel tekið af þakklátum áheyrendum. Efnisskráin var sérlega fjölbreytt og metnaðarfull. Alls tóku sex hljóðfæraleikarar þátt í tónleikunum og tveir einsöngvarar. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir en Kvennakór Garðabæjar stýrir Ingibjörg Guðjónsdóttir.
Þann 9. desember kom svo kórstjórinn og sópransöngkonan Ingibjörg Guðjónsdóttir fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem annar einsöngvari á árlegum aðventutónleikum sveitarinnar, ásamt tenórnum Gissuri Páli Gissurarsyni.
Seinasta sunnudag í aðventu, þann 20. desember, söng Kvennakór Garðabæjar á aðventukvöldi: Fögnum komu ljósins í Lindakirkju með kór Lindakirkju, Landsvirkjunarkórnum og fleiri sönghópum.
Strax upp úr áramótum mun kórinn hefja æfingar af krafti fyrir hina ýmsu viðburði vorannar sem, eins og fyrr segir, munu bera þess ýmis einkenni að kórinn stendur á merkum tímamótum.
Kvennakór Garðabæjar sendir Gígjunni hugheilar jóla- og nýárskveðjur og biður fyrir jólakveðjur til kvennakóra landsins.