Frá áramótum hefur Kvennakór Akureyrar aðallega unnið að undirbúningi fyrir tónleika og tónleikaferð til Króatíu í sumar.
Til að undirbúa þetta var kórinn með æfingahelgi að Húsabakka í Svarfaðardal helgina 27.-28. febrúar. Æfingahelgar sem þessi eru auk æfinganna notaðar til fræðslu, til að þjappa kórkonum saman, gefa þeim tækifæri til að kynnast betur og til að skemmta hver annarri með leik og söng.
Laugardagurinn hófst með Núvitundaræfingum en að þeim loknum var fyrst fundur um Króatíuferðina og síðan almennur félagsfundur. Því næst tóku við söngæfingar undir stjórn Daníels kórstjóra og æft fram að kvöldverði, sem konur úr kórnum matreiddu og framreiddu af tærri snilld.
Að kvöldverði loknum var brugðið á leik og hver rödd fyrir sig sá um skemmtiatriði en alt1 var skemmtinefndin þetta árið og sá um skipulagningu kvöldvökunnar. Að vanda var mikið hlegið og má með sanni segja að þessar kvöldvökur séu á við þó nokkuð marga tíma í hláturjóga.
Á sunnudagsmorgni var svo byrjað aftur með morgunmat kl. 8 og æft stíft með smá hléum til kl. 15, en að því búnu haldið heim.
Þann 3. mars stóð kórinn að tónleikum í Akureyrarkirkju til heiðurs Birgi Helgasyni ásamt Karlakór Akureyrar-Geysi, Hymnodiu og Rúnarkórnum, sem allir starfa á Akureyri. Húsfyllir var á tónleikunum og þóttu þeir takast með miklum ágætum. Efnisskráin samanstóð af 22 lögum sem öll voru eftir Birgi Helgason og ánægjulegt að hann var sjálfur þar viðstaddur tæpra 82 ára að aldri.
Birgir Helgason er Akureyringum vel kunnur, enda starfaði hann áratugum saman sem tónlistarkennari við Barnaskóla Akureyrar og veitti nemendum þar ómetanlegt tækifæri til söngs og hljóðfæranáms í áraraðir. Birgir er einnig afkastamikið tónskáld og samdi mörg laganna sem sungin voru af Kór Barnaskóla Akureyrar meðan hann stjórnaði honum.
Myndirnar tók Ágúst Ólafsson.