Senjórítukórinn heldur hausttónleika ásamt Ragnari Bjarnasyni í Seltjarnarneskirkju laugardaginn 24. október 2015 kl. 16:00. Á dagskránni eru aðallega létt og skemmtileg dægurlög, sem mörg hver eru lög sem Ragnar hefur sungið í gegnum tíðina.
Stjórnandi er Ágota Joó. Vilberg Viggósson leikur á píanó en hann hefur útsett flest lögin sem sungin eru á tónleikunum. Undirleikarar með honum á tónleikunum eru Gunnar Hrafnsson á bassa og Erik Róbert Quick slagverksleikari.
Einsöngvarar eru Ragna Bjarnadóttir og Sigrún Ósk Ingadóttir.
Senjórítukórinn fagnar nú 20 ára afmæli. Haustið 1995 stofnaði Margrét Pálmadóttir, kórstjóri Kvennakórs Reykjavíkur, kór fyrir konur 60 ára og eldri. Tilgangurinn var að gefa áhugasömum eldri konum tækifæri til að halda áfram að syngja eftir sextugt. Konur, sem um langt skeið höfðu sungið með ýmsum kórum, en voru hættar, fögnuðu tilboði Margrétar og mættu á æfingu. Fyrsti kórstjórinn var Rut Magnússon. Margrét Pálmadóttir valdi nafnið á kórinn, Senjórítur, sem núna er Senjórítukórinn. Senjórítunum hefur fjölgað ört. Á fyrstu tónleikum kórsins árið 1996 sungu 25 konur með kórnum, en núna eru nálægt 80 konur skráðar í kórinn.
Miðaverð á tónleikunum er 3000 kr. Frítt fyrir 12 ára og yngri.
Ath. ekki er hægt að borga með korti.