Kvennakórinn Vox feminae heldur tónleika undir yfirskriftinni Stabat Mater í Kristskirkju Landakoti miðvikudaginn 12. mars kl. 20.30. Stabat Mater, sem John A. Speight samdi sérstaklega fyrir Margréti J. Pálmadóttur og Vox feminae, var frumflutt í nóvember og er eitt lengsta verk sem samið hefur verið fyrir íslenskan kvennakór. Inntak þess er helgað Maríu Guðsmóður við krossfestingu Krists og á tónleikunum verður einnig flutt úrval kirkjulegra verka sem hæfa þeim tíma kirkjuársins sem framundan er. Flytjendur auk Vox feminae eru Sigríður Aðalsteinsdóttir, mezzósópran, Daði Kolbeinsson, englahorn, Sif Tulinius, 1. fiðla og konsertmeistari, Hildigunnur Halldórsdóttir, 2. fiðla, Þórunn Ósk Marinósdóttir, víóla, Bryndís Halla Gylfadóttir, selló og Hávarður Tryggvason, bassi. Listrænn stjórnandi tónleikanna er Margrét J. Pálmadóttir en flutningi verksins Stabat Mater mun John A. Speight stjórna. Miðaverð er kr. 2.000.- í forsölu (hjá kórfélögum og í síma 863 4404) og miðaverð við innganginn er kr. 2.500.-