Jórukórinn á Selfossi skellti sér í æfingabúðir að Nesjavöllum í byrjun mars. Í æfingabúðunum voru æfð lög fyrir tónleika kórsins sem fyrirhugað er að halda í vor svo og einnig fyrir tónleikaferð erlendis. Jórukórinn er að fara í ferð til Danmerkur og Svíþjóð í júní og standa nú yfir stífar æfingar fyrir þá ferð. Óskar Einarsson (stjórnandi Gospelkórs Reykjavíkur) mætti í æfingabúðirnar og vann með kórnum nokkur gospellög sem ætlunin er að bæta inn í lagalista kórsins. Það var með undraverðum hætti hve kórnum tókst að tileinka sér þessi nýju lög frá Óskari en þau voru öll á léttum og skemmtilegum nótum. Óskar er mjög vanur að vinna með kóra og allir skemmtu sér konunglega. Kvöldin voru nýtt í skemmtanir, gönguferðir og pottaferðir. Unnið var stíft alla helgina og komu kórkonur þreyttar og ánægðar heim seinnipart sunnudags eftir velheppnaðar æfingabúðir á Nesjavöllum.