Kórar sönghússins Domus Vox efna til tvennra aðventutónleika í Hallgrímskirkju nk. miðvikudagskvöld, þann 14. desember kl. 18:00 og 20:30. Vox feminae, Cantabile, Stúlknakór Reykjavíkur, ásamt einsöngvurum og hljómsveit, fagna komu ljóssins með flutningi fagurrar jólatónlistar. Listrænn stjórnandi er Margrét J. Pálmadóttir.
Yfirskrift tónleikanna er Kom ljóssins engill enda er yfirbragð tónleikanna með hugljúfum helgibrag. Kórarnir telja yfir 200 stúlkubörn og konur á öllum aldri sem allar hafa notið listfengis Margrétar J. Pálmadóttur og annarra kennara hússins við undirbúning þessa árlega hátíðarviðburðar Sönghússins Domus vox. Einsöngvarar eru þau Hanna Björk Guðjónsdóttir sópran og Maríus Sverrisson barítón. Hljóðfæraleik annast Antonia Hevesi, Eydís Franzdóttir, Hallfríður Ólafsdóttir og Stefanía Ólafsdóttir. Guðrún Árný Guðmundsdóttir stjórnar tveimur yngstu deildum Stúlknakórsins.
Flutt verða bæði kirkjuleg verk og þekktar jólaperlur sem kalla fram ljúfar minningar í hugum áheyrenda. Seinni tónleikarnir eru haldnir Verndarenglum Domus vox til heiðurs. Allir þeir sem standa vilja vörð um starfsemi eina kvennasönghúss landsins eiga kost á að gerast verndarenglar og eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. Hægt er að nálgast miða í Domus vox, Laugavegi 116, í síma 511 3737, hjá kórfélögum og við innganginn.