Kórar Margrétar J. Pálmadóttur, Stúlknakór Reykjavíkur, Vox feminae og Cantabile halda sína árlegu aðventutónleika í Hallgrímskirkju miðvikudaginn 11. desember næstkomandi kl. 20:30. Tónleikarnir bera yfirskriftina „Fylking sú hin fríða“ og þar koma fram yfir 200 söngkonur, allt frá 4 ára og uppúr. Þarna ríkir ávallt einstök jólastemming og þetta er frábært tækifæri til að líta upp úr önnum aðventunnar og njóta fallegra jólalaga sem allir þekkja og elska.
Einsöngvarar eru þau Hanna Björk Guðjónsdóttir og Maríus Sverrisson. Hljóðfæraleikarar eru Antonia Hevesi á orgel, Arngunnur Árnadóttir á klarinett ásamt strengjasveit; Helga Steinunn Torfadóttir fiðla, Hlín Erlendsdóttir fiðla, Jónína A. Hilmarsdóttir víóla og Örnólfur Valdimarsson selló.
Stjórnandi er að sjálfsögðu Margrét J. Pálmadóttir en hún fagnar þessa dagana 20 ára afmæli sem stjórnandi kvennakóra.
Miðasala er í síma 511 3737 og 893 8060, og við innganginn.