Kvennakór Hafnarfjarðar heldur vortónleika í Hásölum fimmtudaginn 26. apríl kl. 20:00. Tónleikarnir bera yfirskriftina Blærinn faðmar bæinn sem er tilvitnun í hið fallega ljóð Böðvars Guðmundssonar, Fylgd, en leiðir jafnframt huga kórkvenna að heimabæ kórsins, Hafnarfirði. Dagskrá tónleikanna er fjölbreytt og sett saman af metnaði. Flutt verða lög af ýmsu tagi víða að úr heiminum og mun kórinn syngja söngleikja- og kvikmyndatónlist í bland við hefðbundnari kórverk. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir en hljóðfæraleikarar á tónleikunum verða Antonía Hevesi sem leikur á píanó, Jóhann Hjörleifsson á slagverk og Jón Rafnsson á bassa. Einsöngvarar á tónleikunum verða úr röðum kórkvenna. Miðar verða seldir hjá kórkonum og við innganginn. Miðaverð er 2.500 kr. og er frítt fyrir börn 12 ára og yngri. Tónleikagestum verður boðið upp á kaffi og konfekt í tónleikahléi.