Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar verða í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 5. desember kl. 20:00.
Yfirskrift tónleikanna, Mandarínujól, er tilvísun í lagið Myrkur og Mandarínur en bæði lag og texti er eftir þær Sigríði Eir og Völu í Hljómsveitinni Evu. Lagið var sérstaklega útsett fyrir Kvennakór Hafnarfjarðar af Vilberg Viggóssyni og mun kórinn frumflytja lagið á þessum tónleikum í kvennakórsútsetningu.
Á efnisskrá tónleikanna verður fjölbreytt tónlist í anda jólahátíðarinnar. Auk sígildra jólalaga sem flestum eru löngu kunn mun kórinn flytja klassísk hátíðarverk en einnig tónlist sem stendur nær okkur í tíma.
Einsöngvari á jólatónleikunum er ein ástsælasta söngkona okkar Íslendinga, Guðrún Gunnarsdóttir. Antonía Hevesi leikur á píanó, Jón Rafnsson á bassa og flautuleikari er Guðrún Herdís Arnarsdóttir. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir.
Miðaverð er 3.000 kr. og fer miðasala fram við innganginn. Einnig má senda tölvupóst á kvennakor.hafnarfjardar@gmail.com. Ókeypis er fyrir börn 12 ára og yngri. Að venju verður tónleikagestum boðið að þiggja létta hressingu í tónleikahléi.
Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin á jólatónleika Kvennakórs Hafnarfjarðar og hlökkum til að eiga með ykkur hátíðlega stund á aðventunni.