Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar verða haldnir sunnudaginn 29. apríl kl. 20 í Hafnarborg, menningar- og listamiðstöð Hafnarfjarðar.
Tónleikarnir marka upphaf söngferðalags sem hefst á Íslandi og lýkur í Kanada. 1. maí leggur Kvennakór Garðabæjar land undir fót og heldur til Vancouver á kórahátíðina Tapestry International. Á hátíðinni mun kórinn, líkt og á tónleikunum, flytja íslensk tónverk ásamt vel völdum verkum frá hinum Norðurlöndunum. Erlendu tónverkin tengjast ekki öll nágrannaþjóðum okkar heldur bjóðum við jafnframt upp á efnisskrá með tónlist frá Kanada, Bandaríkjunum og fjarlægari þjóðum svo sem Afríku og Haiti.
Frumflutt verður tónverkið Eldar eftir Báru Grímsdóttur, tónskáld. Það er Kvennakór Garðabæjar mikill heiður að flytja þetta stórbrotna kvennakóraverk. Í verkinu túlkar Bára í tónum, texta og hrynjanda, Skaftáreldana er mörkuðu upphaf móðuharðindanna. Kvennakór Garðabæjar þakkar Báru fyrir samstarfið og einstakt framlag hennar til tónlistarlífs í landinu.
Kórstjóri er Ingibjörg Guðjónsdóttir og píanóleikari Sólveig Anna Jónsdóttir.
Miðaverð í forsölu er 2.500 kr. og við innganginn 3.000 kr.
Hægt er að fylgjast með ferðum Kvennakórs Garðabæjar á fésbókarsíðu kórsins: https://www.facebook.com/kvennakorgb/