Uppselt er á tónleika Léttsveitarinnar "Óskalög Sjómanna" í Háskólabíói næstkomandi sunnudag.
Ekki verða haldnir fleiri tónleikar með þessari dagskrá að sinni en ekki er ólíklegt, vegna gríðarlegs áhuga, að á haustdögum megi þessi gömlu góðu lög hljóma á ný og þeir sem ekki fengu miða nú geti því fengið að njóta þeirra.
Léttsveit Reykjavíkur flytur sína árlegu vortónleika í Háskólabíói sunnudaginn 3. maí kl. 17:00.
Að þessu sinni bera tónleikar yfirskriftina "Óskalög sjómanna". Efnisskráin samanstendur aðallega af lögum og ljóðum sem hljómuðu gjarnan í óskalagaþætti sjómanna. Textarnir fjalla oft um sjómannskonuna, sem beið heima og lýsir tilfinningum sínum í ástar- og saknaðarljóðum. Hver man ekki eftir "Stebba og Línu" og "Heyr mína bæn"?
Sérlegir gestir kórsins verða hin ástsæla söngkona Helena Eyjólfsdóttir og hinn litríki laga- og textahöfundur Gylfi Ægisson.
Athugið að aðeins verður um þessa einu tónleika að ræða.
Miðaverð kr. 2.500-
Miðar verða seldir við innganginn.
Hægt er að nálgast miða hjá Léttsveitarkonum eða
senda tölvupóst á netfang kórsins eða hringja í síma 897 1885
Uppselt er á tónleika Léttsveitarinnar.
Kæru Gígjufélagar
Hér eru fréttir af Íslenska kvennakórnum í Kaupmannahöfn.
Við frumfluttum Stökur á kvennadeginum hér í Kaupmannahöfn. Dagurinn var haldinn í Jónshúsi sem er hús okkar Íslendinga hér í Köben. Það gekk mjög vel og frábært að vera með í frumflutning sem líka fer fram hinum megin við Atlandshafið.
Vorið er komið hér í Kaupmannahöfn og að morgni föstudaginn 27. mars, hoppuðum við í lest til Stokkhólms, með vor í æðum. Við vorum á leið til Stokkhólms, þar sem sjö íslenskir kórar hittust til að syngja og skemmta sér saman. Það eru kórar frá Osló, Lundi, Gautaborg, London, Stokkhólm og tveir kórar frá Kaupmannahöfn, við og Staka. Allir kórarnir eru blandaðir kórar nema við.
Þegar við nálguðumst Stokkhólm byrjaði að snjóa og það ágerðist. Þetta var eins og að ferðast aftur í tíman inní veturinn. En við konur höfum svo mikla aðlögunarhæfni :-) svo við brostum bara útaf eyrum og skemmtum okkur konunglega. Mjög vel heppnað mót. Við byrjuðum tónleikana og sungum Stökur fyrst. Það var mjög vel heppnað.
Kærar kveðjur hér frá Íslenska kvennakórnum í Kaupmannahöfn.
Steinunn formaður
Vortónleikar Kvennakórs Garðabæjar verða 10. og 11. maí
Eins og jafnan á vorönn er í mörg horn að líta hjá Kvennakór Garðabæjar en aðalkrafturinn fer í að æfa fyrir veglega vortónleika sem haldnir verða 10. og 11. maí næstkomandi. Að þessu sinni verða þjóðlög í aðalhlutverki og frá hinum ýmsu þjóðlöndum, s.s. Færeyjum, Finnlandi, Armenínu, Bólivíu, Indónesíu og Spáni svo eitthvað sé nefnt. Seinni hluti tónleikanna verður tileinkaður þekktari lögum innlendum og erlendum. Nánari upplýsingar um stað og tímasetningu tónleikann munu birtast hérna á vef Gígjunnar og einnig á vefsetri Kvennakórs Garðabæjar þegar nær dregur.
Árshátíð Kvennakórs Garðabæjar var haldin með stæl
Laugardaginn 21. mars hélt kórinn glæsilega árshátíð í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju, með þátttöku langflestra kórkvenna og maka. Stjórn kórsins sá um alla skipulagningu hátíðarinnar, auk þess sem hún mætti galvösk í eldhús staðarins snemma dags til þess að undirbúa hátíðina. Matreiddar voru steikur af lömbum og svínum, með dýrindis fyllingum, sem hreinlega ærðu bragðlauka veislugesta síðar um kvöldið. Í vikunni hafði kórkonum verið úthlutað uppskriftum af forréttum, meðlæti og eftirrétti, sem þær matreiddu heima og mættu með á árshátíðina. Óhætt er að fullyrða að erfitt myndi að “toppa” þessa þríréttuðu veislumáltíð enda mátti heyra vellíðunarstunur veislugesta að henni lokinni.
Öll umgjörð hátíðarinnar var veisluföngunum samboðin, salurinn skreyttur af einstakri alúð og smekkvísi og til að kóróna allt saman var veislustýran, Lísa skvísa, eins og kvikmyndastjarna, sprottin út úr myndum gulláranna, falleg og fjörug í rauðum tjullkjól og stóð sig með þeim eindæmum að líkast til festist hún í faginu. Þegar þessi kór hefur einu sinni uppgötvað sérstaka hæfileika er ekki undankomu auðið. Um það geta “stílistar” kórsins borið svo dæmi sá nefnt.
Engin almennileg árshátíð er án skemmtiatriða en þau voru eins og annað, heimagerð. Af nógu var að taka enda hafa kórkonur séð hver annarri fyrir ærlsafullum, heimatilbúnum skemmtiatriðum í æfingabúðum í Skálholti ár hvert. Nú var komið að því að leyfa mökunum að njóta en auk þess flutti ein kórkona minni karla. Að lokum voru græjurnar þandar og dansað hvíldarlítið fram á nótt.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs