Æfingar hjá Kvennakór Akureyrar eftir jólafrí hófust 1. febrúar. Ástæðan fyrir að seinna var farið af stað en venjulega var sú að stjórnandinn, Jaan Alavere, lét af störfum og var hann kvaddur með trega og tárum. Í hans stað tók til starfa Daníel Þorsteinsson, píanóleikari og stjórnandi Kirkjukórs Laugalandsprestakalls með meiru.
Með nýjum stjórnanda kom nýtt prógram og því eins gott að halda sig að verki. Æfingahelgi var haldin dagana 13. – 14. mars. Vegna sparnaðarsjónarmiða var hún að þessu sinni haldin í heimabyggð en tókst engu að síður mjög vel.
Kökubasarar eru haldnir í verslunarmiðstöðinni Glerártorgi þrisvar á vorönn og það sem af er hefur gengið mjög vel að selja og hnallþórur kórfélaga hafa runnið út eins og heitar lummur.
Vortónleikar kórsins eru fyrirhugaðir í Tónlistarhúsinu Laugarborg í Eyjafjarðarsveit laugardaginn 2. maí, nánari fréttir af þeim koma þegar nær dregur.
Vorferð kórsins verður síðan helgina 5. – 7. júní og að þessu sinni verður Neskaupsstaður fyrir valinu. Þar verða haldnir tónleikar 6. júní og sungið í sjómannadagsmessu 7. júní.
Helginni 7.-8. mars eyddu Kyrjurnar austur í Ölfusi, á Hótel Eldhestum. Þar voru þær við æfingar og undirbúning vortónleika kórsins sem haldnir verða um miðja maí nk.
Æfingar hófust strax við komuna austur á laugardagsmorgninum og var unnið fram eftir degi, með matar- og kaffihléum. Einnig var farið í stutta gönguferð um næsta nágrenni og sveitaloftinu með hestalyktinni andað djúpt að sér.
Þegar líða tók að kvöldi voru nóturnar lagðar til hliðar og haldið af stað út í heitu pottana, þar sem þreytan var látin líða úr kroppunum. Dásamlegt var að sjá hrossin hlaupa og kljást í rökkrinu, um það bil sem Venus birtist á vesturhimni.
Mikil gleði og glaumur ríkti svo yfir kvöldverðarborðum. Þema kvöldsins voru hattar og höfuðskraut og skemmtu Kyrjur sér eins og þeim einum er lagið. Að sjálfsögðu brustu þær svo allar í söng undir lok vel heppnaðrar kvöldstundar.
Snemma á sunnudagsmorgninum var haldið áfram að þjálfa röddina og æfa lögin og stóðu æfingar yfir fram eftir degi. Seinnipart dagsins var síðan haldið heim á leið yfir heiðina, eftir mjög skemmtilega og vel heppnaða æfingaferð.
Eins og nafnið ber með sér eru þetta léttar konur (120 talsins um 7 tonn alls) sem syngja helst létt lög undir stjórn Jóhönnu V. Þórhallsdóttur. Tónleikarnir fimm sem heyrist frá eru Græna sveiflan, Fljóð og funi, Írska sveiflan, 100 raddir á tíu ára afmæli og Suður um höfin. Ekki spillir að heyra undirtektir áheyrenda milli laga.
Léttsveitin á því láni að fagna að hafa Aðalheiði Þorsteinsdóttur sem píanóleikara og útsetjara og hefur hún útsett fjölda laga fyrir kórinn. Einnig hefur Tómas R. Einarsson verið fastur undirleikari á tónleikum. Svo hafa Rússíbanar, Matti Kallio, Vilma Young Eggert Pálsson, Einar Kr. Einarsson, Kristinn H. Árnason og Gunnar Hrafnsson leikið með kórnum að ógleymdri Stínu Bongó sem er í Léttsveitinni.
Þetta er léttur og áheyrilegur diskur sem flestir ættu að hafa gaman af að eiga.
Diskurinn er til sölu hjá lettsveit(hjá)lettsveit.is eða í Léttsveitargemsanum 897 1885 og kostar 1.200.- krónur.
Kvennakór Reykjavíkur verður í æfingabúðum að Skógum undir Eyjafjöllum helgina 6. - 8. mars. Þar verður farið ítarlega í vordagskrána og verða stífar æfingar kvölds og morgna. Auk þess verður húllumhæ á laugardagskvöldið með góðum mat, heimatilbúnum skemmtiatriðum, leikjum og dansi. Þar verður örugglega gaman eins og ætíð í æfingabúðum kórsins. Áhugasamir eru svo beðnir um að taka 3. maí frá en þá verður Kvennakór Reykjavíkur með vortónleika sína.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs