Hátíðarbragur var yfir aðventutónleikum kvennakórsins Vox feminae, sem haldnir voru sunnudaginn 7. desember í St. Thomas Kirche í Berlín. Tónleikarnar voru vel sóttir og vakti kórinn hrifningu þýskra tónleikagesta en dagskrá tónleikanna spannaði allt frá trúarlegri tónlist til íslenskrar jólatónlistar.
Þá söng kórinn í fjölsóttir messu í Gethsemanekirche í Prenzlauer Berg í Berlín. Kirkjan er að jafnaði afar vel sótt en svo skemmtilega vildi til að þennan sunnudag fóru fram þrjár skírnir í messunni. Þátttakan var því að þessu sinni einstaklega góð en áætlað er að yfir 200 manns hafi hlýtt á söng kórsins. Ennfremur heimsótti kórinn sendiráð Íslands í Berlín og söng fyrir gesti og gangandi í sameiginlega húsi norrænu sendiráðanna í Berlín.
Var það fyrir milligöngu sendiráðsins í Berlín að kórinn söng í Gethsemanekirche. Þónokkrir íslenskir kórar hafa sungið í kirkjunni við mikla hrifningu gesta en hin sterka kórahefð á Íslandi er um margt ólík þeirri þýsku. Á síðustu misserum hafa margir framúrskarandi kórar heimsótt Þýskalanda og hafa með tónleikahaldi sínu kynnt íslenska menningu og þá sérstöðu sem Ísland státar af á þessu sviði.
Kvennakórinn Vox feminae var stofnaður árið 1993 og er vel kynntur á Íslandi og Ítalíu en árið 2000 lenti hann í öðru sæti í VIII. alþjóðlegu kórakeppni í kirkjulegri tónlist, sem haldin er í nafni tónskáldsins Giovanni Pierluigi Da Palestrina í Vatikaninu í Róm. Kórinn hefur haldið fjöldann allan af sjálfstæðum tónleikum og flytur aðallega eldri tónlist, andlega og veraldlega. Hefur kórinn gefið út þrjá geisladiska.
Heimild:
Stiklur, fréttablað utanríkisráðuneytisins um menningarmál