Stöð 2 og Sagafilm leita að kórum til að koma fram í þáttunum Kórar Íslands sem sýndir verða í beinni útsendingu á Stöð 2 í vetur.
Þar munu 20 kórar syngja til sigurs um titilinn Kór Íslands.
Ef kórinn þinn telur fleiri en tíu meðlimi og allir orðnir 16 ára er ekki eftir neinu að bíða.
Við leitum að kórum hvaðanæva af landinu og af öllum gerðum t.d. kvenna-, karla-, blönduðum-, kirkju-, eða átthagakórum.
Þetta er frábært tækifæri fyrir kóra að vekja á sér athygli, efla starfið og taka þátt í að búa til frábært sjónvarpsefni fyrir íslenska áhorfendur.
Kórarnir flytja lögin án undirleiks (acappella).
Sæktu um, komdu kórnum þínum á framfæri og taktu þátt í að kynna hið fjölbreytta kórastarf í landinu.
Nánari upplýsingar um þættina
Þættirnir skiptast í þrjár hluta: undankeppnina, undanúrslit og úrslit
Undankeppnin eru 5 þættir (þættir 1 til 5):
Í hverjum þætti mætast fjórir kórar og flytja tvö lög í beinni útsendingu.
Lögin skulu valin í samráði við framleiðendur þáttanna og skal hvort lag vera um 2,30 - 3,0 mínútur að lengd. Hugmyndin er að kórarnir flytji tvö ólík lög t.d. þjóðlag, popplag eða rokklag.
Tveir kórar komast áfram úr hverjum þætti í undankeppninni.
Samtals fara því 10 kórar (tveir kórar úr hverjum þætti) áfram í næsta hluta keppninnar sem eru undanúrslitaþættirnir.
Ath. Símakosning í lok hvers þáttar ásamt atkvæðum dómara ráða úrslitum um hvaða kórar komast áfram í næsta hluta keppninnar.
Undanúrslitaþættirnir eru tveir talsins (þættir 6 og 7):
Í hvorum þætti mætast fimm kórar í beinni útsendingu. Hver kór syngur eitt lag sem á að vera um 3 - 4 mín að lengd.
Tveir kórar úr hvorum þætti komast áfram í úrslitaþáttinn. Samtals fara því fjórir kórar í úrslitaþáttinn.
Ath. Símakosning í lok hvers þáttar ásamt atkvæðum dómara ráða úrslitum um hvaða kórar komast áfram í lokahluta keppninnar.
Úrslitaþátturinn (þáttur 8):
Fjórir kórar keppa til úrslita í úrslitaþættinum og þurfa kórarnir að flytja tvö lög.
Hvort lag má vera um 2,30 til 3,0 mínútur að lengd.
Ath. Símakosning ræður úrslitum.
Fjöldi þátta og mikilvægar dagsetningar.
Þættirnir verða átta talsins og fara þeir allir fram í beinni útsendingu á Stöð 2.
- 5 þættir í undankeppninni (24. sept, 1. okt, 8. okt. 15. okt. 22. okt).
Hver kór mætir á eina af þessum dagsetningum
- 2 þættir í undanúrslitum (29. Okt, og 5. nóv)
Þeir kórar sem komast áfram úr undanúrslitunum mæta annan hvorn daginn.
- 1 úrslitaþáttur (12. nóv)
Fjórir kórar mæta í úrslitaþáttinn, tveir úr hvorum undanúrslitaþættinum.
Tímabil
Í lok ágúst og byrjun september komum við til með að heimsækja alla kórana sem verða valdir til þátttöku og gera um þá stutta kynningu. Þar kynnumst við kórunum og umhverfi þeirra betur. Tekin verða stutt viðtöl við nokkra kórfélaga og fylgst með æfingum.
Beinu útsendingarnar fara fram á sunnudögum frá 24. september til 12. nóvember. Gera skal ráð fyrir að allur dagurinn fari í æfingar og annan undirbúning fyrir útsendinguna.
Á fimmtudeginum fyrir hverja beina útsendingu fara fram æfingar á sviðinu.
Hver kór fær um 1,30 tíma til æfingar.
Tónlistarstjóri verður kórunum innan handar fyrir hönd framleiðanda.
Verðlaun
Verðlaunin eru ekki af verri endanum og munu koma hvaða kór sem er að góðum notum í þeirra starfi. Verðlaunin verða kynnt fljótlega.
Dómnefnd
Þriggja manna fagleg dómnefnd verður kynnt til sögunnar síðar í sumar.
Gaman væri að fá ykkur í lið með okkur
og taka þátt í að búa til skemmtilegt sjónvarpsefni!
Nánari upplýsingar á: korar@sagafilm.is