Með gleðina alltaf að leiðarljósi
Hvað getur hópur miðaldra kvenna haft með gleði að gera? Jú hópurinn hittist einu sinni viku og syngur þar til skottin fara dilla í takt við tónlistina. Kvennakór Kópavogs er 15 ára á þessu starfsári og hafa þessi ár verið spennandi, gjöful og krefjandi.
Í tilefni afmælisins verða haldnir tvennir tónleikar í Gamla Bíói að kvöldi síðasta vetrardags, kl. 19:00 og 22:00. Þar verða tekin fyrir lög frá níunda áratugnum og þá sérstaklega rokklög sem minna kórkonur á yngri útgáfuna af sjálfum sér. Lagavalið spannar Metallica, Alice Cooper, Cindy Lauper, Chicago, Roxette og fleiri þekkta flytjendur. Tónleikarnir verða með kaffihúsa sniði þar sem áhorfendur geta setið við borð og notið léttra veitinga á meðan á tónleikum stendur. Með kórnum verður rokkhljómsveit sem stofnuð var sérstaklega fyrir þessa tónleika ásamt einsöngvurunum Pétri Erni og Heru Björk. Áhorfendur geta átt von á því að upplifa rokktónleika með ljósaflóði, reyk og dúndur flutningi kórs og hjómsveitar undir styrkri stjórn John Gear.
Upphaf kórsins var með þeim hætti að Natalia Chow Hewlett auglýsti eftir konum til að stofna kór árið 2001 og í dag eru þó nokkrar konur sem mættu á þennan fyrsta fund enn starfandi í kórnum. Svo virðist að þær sem mættu á stofnfundinn höfðu ekki haft mjög hátt um þessa áhættu sem þær voru að taka. Á fyrstu æfingu hittust t.d. mæðgur alveg óvænt. Það getur verið hálf neyðarlegt að standa allt í einu fyrir framan skelegga konu og stama rjóð í kinnum: „Mamma, hvað ert þú að gera hér?“ Já, sönggleðin spyr ekki að aldri, kynslóð eða smekk.
Á þessum árum hefur Kvennakór Kópavogs tekist á við alls konar verkefni, tónlistarlega séð hefur hann unnið með íslenska tónlist og eru tónleikar þar sem tónlist Ingibjargar Þorbergs var tekin sérstaklega minnistæðir. Einnig hefur kórinn tekið fyrir erlenda tónlist frá ýmsum tíma og á síðari árum hafa tónleikar einkennst af þemum sem valin hafa verið með sönggleðina og kátínu að leiðarljósi. Til dæmis má nefna að á síðasta starfsári báru vortónleikarnir þann skemmtilega titil „Úti á túni“ og út frá því má auðveldlega sjá fyrir sér hvernig söngsdagskráin hefur litið út.
Kvennakór Kópavogs hefur ekki aðeins unnið að því að vekja gleðina og hlýjuna í hjörtum kórkvennanna sjálfra og þeirra sem mæta á tónleika kórsins, kórinn hefur einnig verið iðinn við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda. Á árunum eftir hrun var mikill áhugi hjá kórkonunum að gefa til baka til þess samfélags sem hafði stutt kórinn frá upphafi. Kórinn ákvað þá setja upp tónleika sem kallaðir voru „Hönd í hönd“ og var öll innkoma af þeim tónleikum færð Mæðrastyrksnefnd Kópavogs. Kórinn fékk til liðs við sig ýmsa þjóðkunna listamenn sem einnig gáfu vinnu sína. „Hönd í hönd“ tónleikarnir urðu svo að árlegum viðburði sem segja má að hafi fest sig í sessi í listalífi Kópavogs.
Kórinn hefur líka ferðast um landið sem og erlendis og haldið uppi merki Kópavogs með söng og innilegri kátinu og gleði. Á síðasta starfsári fór kórinn til dæmis til Ítalíu og var ekki bara sungið í frábærum tónleikasölum heldur tók kórinn upp á því að dreifa sér um götur og syngja undirleikslaust fyrir gesti og gangandi við mikinn fögnuð.
Það er um að gera að fylgjast með Kvennakór Kópavogs í framtíðinni, því það er aldrei að vita hverju þær taka uppá næst. En nú eru þær að setja sig í gírinn fyrir tónleika vorsins, farnar að huga að hárgreiðslunni, legghlífunum grifflunum og öllum smáatriðunum sem tilheyra níunda áratugnum. Það væri því ekki úr vegi að ljúka vetrinum með því að sjá hvernig tekist hefur til.