Kvennakór Hafnafjarðar er nýkomin heim úr söngferðalagi til Spánar. Friðbjörg Arnþórsdóttir formaður kórsins sendi okkur ferðasöguna og kunnum við henni bestu þakkir fyrir.Fréttatilkynning frá Kvennakór Hafnafjarðar
Já, það má með sanni segja að glæstur og spenntur hópur kvenna og áhangenda þeirra hafi fyllt húskynni flugstöðvar Leifs Eiríkssonar mánudaginn 3. október síðastliðinn. Hópurinn hafði ákveðið að mæta snemma til að hafa nægan tíma til að skoða sig um og vökva lífsblómið áður en haldið yrði yfir höfin.
Það var aðeins minna glæstur og spenntur hópur sem lenti á flugvellinum í Barcelona, spennan var gífurleg. Um miðja nótt komum við okkur fyrir á okkar ágæta hóteli. Sum hjónin greip mikil örvænting þegar ljóst var að ekki var hægt að færa rúmin saman í herbergjunum, en þar sem herbergin voru bæði með fataherbergi og góðri sturtu var ekki hægt að kvarta undan slíkum smámunum. Menn og konur urðu bara að láta hugmyndaflugið ráða.
Strax næsta morgun hittust kórkonur á æfingu og voru margar þreyttar eftir flugið. Sumar áttu erfitt með að festa svefn fyrstu nóttina, loftræstingin á hótelinu var líka eitthvað stríða okkur en við reyndum að láta það ekki á okkur fá. Við fórum í kynnisferð um borgina með enskumælandi fararstjórum og fengum að vita allt um katalónskan byggingarstíl allt frá dögum Rómverja til vorra daga. Um kvöldið tvístraðist hópurinn og fólk kynnti sér matarmenningu þjóðarinnar á ýmsum góðum veitingarstöðum borgarinnar. Margir höfðu komist í búðir og voru almenn skóinnkaup Kvennakórs Hafnarfjarðar komin verulega á skrið.
Á miðvikudag æfðum við í húsnæði sem Arnaldur Árnason gítarleikari og tónlistarkennari til margra ára í Barcelona útvegaði okkur og nú loks fékk Antonía hljóðfæri við hæfi. Æfingin var skemmtileg að vanda og tíminn nýttur vel enda framundan tónleikar á erlendri grund sem gerist nú ekki á hverjum degi hjá kvennakórum landsins. Það sem eftir var dags var frjáls tími og nýttu kórkonur og makar það misjafnlega. Margir geystust í moll borgarinnar og fengum útrás fyrir innkaupagleðina sem oft fylgir íslenskum konum á ferðalögum. Flestar náðu að kaupa sér í það minnsta eitt skópar þennan daginn.
Fimmtudagurinn rann upp bjartur og fagur. Í dag var ferðinni heitið upp í fjöll í Montserrat-klaustrið þar sem við ætluðum að syngja fyrir þúsundir áheyrenda. Skipt var í karla og kvennarútur. Eitthvað var óþefurinn í kvennarútinni að pirra frúrnar svo bílstjóragreyið brá á það ráð að spreyja ilmefnum út um alla rútu. Þá var okkur kórkonum öllum lokið, ilmefni voru ekki það sem syngjandi kórraddir þurftu á að halda í morgunsárið. En áhangendahópurinn var nú svo elskulegur að þeir skiptu við okkur um rútu og sátu sjálfir í vellyktandi upp á hæstu hæðir Katalóníu.
Söngurinn í klaustrinu tókst býsna vel en konur voru stressaðar enda ekki á hverjum degi sem kórinn syngur fyrir á annað þúsund gesta. Hvort sem það var spænski drengjakórinn eða Kvennakór Hafnarfjarðar undir stjórn Hrafnhildar Blomsterberg sem fékk allt þetta fólk til að koma skal ósagt látið en upplifunin var engu að síður ólýsanleg. Við borðuðum öll saman á veitingastað í Montserrat og urðu nú margir fyrir þó nokkrum vonbrigðum. Héldu sæfarar og víkingar að hér væri ekki um skötusel að ræða eins og stóð á matseðlinum, heldur graðýsu af verstu gerð. Búðingur að katalónskum sið rann þó ljúflega niður hjá flestum. En dagurinn var orðinn langur og sumir ferðalangar orðnir langþreyttir þó leiðsögumaðurinn hafi farið á kostum. Og ótrúlegt en satt, það var bara býsna kalt uppi í fjöllunum á heita Spáni. Hluti af hópnum fór á undan heim til hvíldar og hressingar en og sá svo sannarlega eftir því þegar hinir komu heim eftir skemmtilega rútuferð með Tómasi leiðsögumanni. Að vísu gátu þeir stært sig hagstæðum skóinnkaupum.
Næsti dagur hófst með kóræfingu að vanda og nú fór að bera á taugatitringi, kæmu einhverjir á tónleikanan? Hvernig kæmi söngurinn út? Hvernig ættum við að ganga inn? Skyldu kjólarnir vera krumpaðir?
Ákveðið var að hittast snemma og taka rútu í kirkjuna, St. Ramon de Penyafort, í Barcelona og nýta tímann vel. En það fór á annan veg. Blessaður bílstjórinn rataði ekki um borgina og ók hring eftir hring. Loks staðnæmdist hann og geðillar kórsystur stigu út dragandi á eftir sér flugfreyjutöskur með kjórkjólum, skóm og snyrtivörum. Eltum við bílstjórann dágóða stund um iðandi mannlíf Barselónuborgar en allt kom fyrir ekki, bílstjórinn var með allt aðra kirkju í huga og urðum við því frá að hverfa. Enn eltum við bílstjórann en nú var farið að síga verulega í margar. Antónía Hevesi píanóleikari brá á það ráð láta okkur gera ýmsar misleiðinlegar raddæfingar til að sýna bílstjóranum í tvo heimana. Eftir enn meiri akstur, bölv og ragn mættum við í guðshúsið hálftíma fyrir messu. Þrátt fyrir plássleysi, vatnsskort, klósettskort og fleira gengu tónleikarnir eins og í sögu. Við sungum fyrir rúmlega 100 manns og var ekki annað að heyra en að fólki líkaði söngur okkar vel.
Um kvöldið var því ærlegt tilefni til að skemmta sér vel með körlunum okkar sem höfðu af elsku sinni og umhyggju valið matsölustað sem gat rúmað allan hópinn. Og ekki voru amalegar móttökurnar þar, alls kyns sjávarafurðir voru á boðstólunum, sumt höfðum við aldrei séð nema þá einna helst í teiknimyndum Disneys. Bragðaðist þetta misvel eins og gengur og gerist en gleðin var mikil og söngurinn ómaði í hjörtum okkar.
Laugardagurinn var aðaldagurinn í ferðinni en þá var ferðinni heitið til þorpsins Torredembarra sem er suðaustur af Barcelona. Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar við rákumst á auglýsingar um tónleikana okkar á hverju götuhorni. Sama hvar við fórum, alls staðar voru myndir af Kvennakór Hafnarfjarðar. Það var ekki að spyrja að móttökunum sem við fengum í þessu fallega þorpi. Ungur maður að nafni Jacob Riambau hafði sko aldeilis unnið heimavinnuna sína og gott betur en það. Allt var skipulagt út í ystu æsar og allt stóð eins og stafur á bók. Við sungum fyrir fullri kirkju Esglesia de Sant Pere af iðandi áheyrendum sem klöppuðu okkur lof í lófa, faðmaði okkur og kyssti. Við vorum greinilega komnar til að sjá og sigra. Gleði áheyrenda skilaði sér beint inni í okkar dýpstu hjartarætur og brosið skein skært af andliti hverrar kórsystur, kórstjórinn sjálfur brosti hringinn og sumir úr áhangendahóp kórsins þurrkuðu sér um hvarmana af hamingju. Um kvöldið borðuðum við hátíðarkvöldverð þar sem bæði voru aðkeypt og heimatilbúin skemmtiatriði. Söngurinn og gleðin tók öll völd og við svifum á vit ævintýra næturlífsins.
Ferðin til Börsungaborgar mun seint líða okkur úr minni. Nú er bara að skipuleggja næsta kórferðalag, til Angmagsalik!
Með bestu kveðju,
Kvennakór Hafnafjarðar
Vefsetur: http://kvennakorinn.org/
Netfang: http://kvennakorinn.org/