Kvennakór Suðurnesja heldur aðventutónleika í Keflavíkurkirkju miðvikudaginn 16. desember kl. 20:00.
Yfirskrift tónleikanna er „Ave Maria“ sem er lýsandi fyrir efnisskrá tónleikanna en hún er tileinkuð Maríu mey. Ótal lög hafa verið samin við bænina Ave Maria og mun kórinn flytja nokkur þeirra. Þar má nefna tvö íslensk lög eftir Eyþór Stefánsson og Sigvalda Kaldalóns, Ave Mariu eftir Franz Schubert og aðra eftir J.S. Bach og Charles Gounod sem eru tvær af þekktustu „Ave Maríum“ heims, auk fleiri laga við þessa bæn. Önnur lög tengd Maríu mey eru einnig á efnisskránni. Það má segja að það sé vel við hæfi í lok þessa árs þar sem haldið hefur verið upp á 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, að konur syngi um heilaga Guðsmóður, tákn kvenleika og móðurímyndar.
Þegar líður að jólum er fátt betra en að taka sér hlé frá erli jólaundirbúningsins og upplifa hátíðlega og fallega stund.
Stjórnandi kórsins er Dagný Þórunn Jónsdóttir, Geirþrúður Fanney Bogadóttir leikur á píanó og Birna Rúnarsdóttir á þverflautu. Einsöngvarar eru Birta Rós Arnórsdóttir og Guðbjörg Guðmundsdóttir.
Aðgangseyrir 2.500 kr. Miðasala við innganginn.