Kvennakór Hafnarfjarðar heldur jólatónleika í Víðistaðakirkju 3. desember n.k. sem bera yfirskriftina Dansaðu vindur. Gestasöngvarar á þessum tónleikum verða nokkur börn og ungmenni sem öll eiga það sameiginlegt að tengjast kórkonum fjölskylduböndum og munu þau vafalaust ljá tónleikunum skemmtilegan svip.
Á þessu ári eru liðin tuttugu ár frá stofnun Kvennakórs Hafnarfjarðar og var þess minnst á margvíslegan hátt á árinu. Ber þar hæst tvenna glæsilega afmælistónleika sem haldnir voru s.l. vor til þess að fagna þessum tímamótum. Í tilefni af afmælinu lét kórinn einnig hanna og sauma nýja kórkjóla sem vígðir voru á afmælistónleikunum.
Nú á aðventunni er hins vegar komið að hefðbundnum jólatónleikum kórsins en hjá mörgum er það orðinn ómissandi þáttur í undirbúningi jólanna að taka frá stund á aðventunni og hlusta á fallega tónlist sem færir okkur andblæ jólanna. Dagskrá tónleikanna í Víðistaðakirkju verður fjölbreytt en þar mun Kvennakór Hafnarfjarðar flytja hefðbundin jólalög, kirkjulega tónlist og helgikvæði í bland við nútímalega jólasöngva.
Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir. Píanóleikur er í höndum Antoníu Hevesi og flautuleikari er Kristrún Helga Björnsdóttir.
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar verða í Víðistaðakirkju fimmtudaginn 3. desember og hefjast kl. 20:00. Miðaverð er 2.500 kr. og fer miðasala fram hjá kórnum og við innganginn. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.
Hægt er að fylgjast með starfi Kvennakórs Hafnarfjarðar á Facebook og á vefnum www.kvennakorinn.org