Kvennakór Hafnarfjarðar fagnar tuttugu ára starfsafmæli á þessu ári og heldur tvenna tónleika nú í vor til þess að minnast þessara tímamóta. Fyrri tónleikarnir verða í Hamarssal Flensborgarskólans í Hafnarfirði sunnudaginn 26. apríl og hefjast kl. 16:00 en hinir síðari verða í Fella- og Hólakirkju laugardaginn 2. maí og hefjast kl. 15:00.
Á tónleikunum mun kórinn líta yfir farinn veg, dusta rykið af gömlum nótum og endurnýja kynni við fjölmörg falleg lög sem kórinn hefur sungið á liðnum árum. Flest þessara laga hafa öðlast sérstakan sess í hjörtum kórkvenna á tuttugu ára starfsævi kórsins. Einnig verður frumflutt lag sem Þóra Marteinsdóttir samdi sérstaklega fyrir Kvennakór Hafnarfjarðar í tilefni afmælisins við ljóð eftir Örn Árnason.
Ekkert hefur verið til sparað til að gera afmælistónleikana sem glæsilegasta og hefur kórinn fengið til liðs við sig tvo hafnfirska listamenn, þau Margréti Eir og Pál Rósinkranz sem nýverið gáfu saman út geisladiskinn „If I needed you“. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir, hljóðfæraleikarar verða Antonía Hevesi sem leikur á píanó, Jón Rafnsson á bassa og flautuleikari er Kristrún Helga Björnsdóttir. Kynnir á tónleikunum verður Þuríður Óttarsdóttir.
Á 20 ára afmælistónleikunum mun Kvennakór Hafnarfjarðar vígja glæsilega, nýja kórkjóla sem hannaðir voru af Snædísi Guðmundsdóttur hjá Dís íslensk hönnun.
Miðar verða seldir í forsölu á 2500 kr. og fer miðasala fram hjá kórkonum. Miðaverð við innganginn er 3000 kr. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri. Tónleikagestum verður boðið að þiggja kaffi og konfekt í tónleikahléi.