Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
Miðvikudaginn 10. desember hélt kórinn aðventutónleika sína og voru þeir vel sóttir eins og mörg undanfarin ár. Aðventutónleikarnir skipa alltaf sérstakan sess í hugum kórkvenna og þykir okkur ákaflega vænt um hversu margir koma að hlýða á þá, ár eftir ár. Þá leggjast allir á eitt, jafnt tónleikagestir sem kórkonur, um að skapa fallega jólastemningu.
Við þökkum tónleikagestum kærlega fyrir komuna og fyrir að gera þessa stund einstaklega ánægjulega.
Jólamerki Kvennakórs Garðabæjar 2014
Nú fer sölu jólamerkis kórsins senn að ljúka. Sala á merkinu hófst í byrjun desember og hefur því verið feikna vel tekið, enda hafa kórkonur látið hendur standa fram úr ermum við sölu á merkinu víðsvegar í bæjarfélaginu. Það er auðvitað mikið í húfi fyrir kórinn, þar sem hluti af söluhagnaði fer í rekstur kórsins en hluti fer til styrktar Konukoti.
Eins og áður hefur verið sagt frá, er Konukot athvarf fyrir heimilislausar konur, flestar í fíkniefna- eða áfengisneyslu, og þökkum við öllum þeim sem stutt hafa þessi málefni með kaupum á merkinu í ár.
Áhugasamir um kaup á merkinu geta enn nálgast merkið á netfanginu: kvennakorgb@gmail.com
Verkefni fyrir Tryggingarmiðstöðina
Kórinn hefur fengist við mörg skemmtileg verkefni á þessu hausti. Það sem líklega stendur þó upp úr var að syngja jólalag TM, bæði í hljóðveri og síðan fyrir viðskiptavini TM í heimahúsum og fyrirtækjum.
Gengu kórkonur milli húsa á frostköldum vetrarkvöldum desembermánaðar, þar sem jólaljósin tindruðu á trjám og runnum, bönkuðu upp á og brustu í söng. Heimilisfólk varð að vonum æði undrandi þegar hópur syngjandi kvenna með grænar jólasveinahúfur stóð á tröppunum hjá þeim og söng um sósu sem klúðrast, jólasvein sem festist í strompi og kerti sem veldur íkveikju.
Má nú heyra sönginn óma í auglýsingatímum ljósvakanna og í netheimum.
Gleðilegt jól og farsælt komandi ár 2015
Kvennakór Garðabæjar er nú kominn í jólafrí og hefjast æfingar aftur í byrjun janúar. Framundan eru kirkjulegir tónleikar í mars og munum við halda áfram að æfa fyrir þá. Samhliða verður unnið að dagskrá vortónleikanna sem verða haldnir í maí.
Kvennakór Garðabæjar óskar gleðilegra jóla, friðar og farsældar á nýju ári.
Við þökkum einlæglega fyrir allar gleðistundirnar á árinu.