Aðalfundur Gígjunnar var haldinn 18. október. Á fundinum var kjörin stjórn næsta starfsárs en fjórar af fimm konum í aðalstjórn Gígjunnar gáfu kost á sér áfram. Steiney Halldórsdóttir úr Kvennakór Hafnarfjarðar gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Steiney á að baki fimm ár í aðalstjórn og eitt ár í varastjórn, en það er lengsta stjórnarseta þeirra kvenna sem setið hafa í stjórn Gígjunnar og eru henni þökkuð góð störf. Stjórn Gígjunnar starfsárið 2014 - 2015 er skipuð þeim Þórhildi Kristjánsdóttur formanni, Kvennakór Hornafjarðar, Dagbjörtu Láru Ottósdóttur úr Kvennakórnum Léttsveit Reykjavíkur, Guðlaugu Ásgeirsdóttur úr Heklunum, Ragnheiði Helgadóttur úr Kvennakór Hafnarfjarðar og Önnu Lilju Ottósdóttur úr Kvennakór Hornafjarðar. Í varastjórn eru Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir úr Kvennakór Akureyrar, Kolbrún Halldórsdóttir úr Kvennakór Reykjavíkur og Una Þórey Sigurðardóttir úr Kvennakór Akureyrar.
Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum hélt Pernilla Rein frá Kvennakór Ísafjarðar stutta kynningu á landsmóti íslenskra kvennakóra sem verður haldið á Ísafirði 2017. Stofnuð hefur verið landsmótssíða fyrir landsmótið 2017 á vefsetri Gígjunnar og munu fréttir birtast af undirbúningi mótsins á síðunni. Í máli Pernillu kom fram að mótið verður haldið aðra helgina í maí 2017 en í skoðun er að hefja mótið jafnvel á fimmtudegi og ljúka því á laugardagskvöldi svo konur hafi allan sunnudaginn fyrir heimferð þar sem um langa leið er að fara fyrir marga kóra. Pernilla sagði einnig frá því að þegar hafi verið rætt við ungt tónskáld frá Ísafirði, Halldór Smárason, um að semja landsmótslagið. Að því loknu kynnti Margrét Pálmadóttir óvænt atriði en þar var Halldór mættur ásamt Matthildi Guðrúnu Hafliðadóttur og fluttu þau eitt lag saman. Þess má geta að Pernilla vissi ekki af því að Halldór væri á staðnum, þannig að þetta var skemmtileg tilviljun.
Undanfarin ár hefur hefur stjórn Gígjunnar afhent viðurkenningu til kvennakórskonu sem hefur unnið gott starf og er mikilvæg fyrir kórinn sinn. Hugmyndin með þessu er að vekja athygli á því hversu gott og fórnfúst starf margar kórkónur vinna í sínum kórum. Án þessara kvenna væri starf kvennakóra ekki mögulegt. Þetta eru sannkallaðar hvunndagshetjur. Þær konur sem hafa hlotið heiðursviðurkenningu Gígjunnar eru Hrönn Hjaltadóttir úr Kvennakór Reykjavíkur árið 2010, Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir úr Vox feminae árið 2011, Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir úr Kvennakór Suðurnesja árið 2012 og Gróa María Þorvaldsdóttir úr Kvennakór Kópavogs árið 2013.
Á landsmóti íslenskra kvennakóra á Selfossi árið 2011 voru auk þess afhentar viðurkenningar til þriggja kvenna sem unnið hafa ómetanlegt starf fyrir Gígjuna og aðildarkóra sambandsins, en það voru þær Margrét Bóasdóttir kórstjóri, Margrét Pálmadóttir kórstjóri og Heiða Gunnarsdóttir, þá í Vox feminae en nú í Kvennakór Garðabæjar.
Heiðursviðurkenningu Gígjunnar 2014 hlaut Sigríður Anna Ellerup úr Vox feminae. Í umsögn kórsins um Sigríði Önnu segir m.a.: Anna Sigga hefur ávallt sýnt mjög mikinn metnað fyrir hönd starfs kvennakóra á Íslandi og hefur alltaf viljað veg þess sem mestan. Félagar í Vox feminae og öðrum kvenna- og stúlknakórum eiga henni mikið að þakka vegna hennar óeigingjarna starfs. Verkefni kórsins hafa ávallt verið í forgangi hjá henni og hún hefur verið öðrum kórfélögum bæði hvatning og fyrirmynd hvað varðar ástundun, þátttöku í uppbyggingu innra starfs með þátttöku í óteljandi nefndum og uppbyggingu á ímynd kórsins út á við.
Í lok aðalfundar hélt Sigríður Hulda Jónsdóttir stutt en áhugavert námskeið undir yfirskriftinni "Efling gleðinnar" en námskeiðið byggir á rannsóknum innan jákvæðrar sálfræði og tengingu við hugræna atferlismótun. Daglegar hugsanir okkar og venjur stýra miklu um viðhorf okkar og hvernig okkur tekst að takast á við verkefni daglegs lífs. Á námskeiðinu var farið yfir þá grunnþætti sem efla jákvæðni og vellíðan og gera okkur kleift að takast á við áskoranir og njóta daglegs lífs.