Kvennakór Suðurnesja heldur tónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti mánudaginn 29. september kl. 20:00.
Í byrjun október fer kórinn til Minneapolis í Bandaríkjunum þar sem hann tekur þátt í hátíð Leifs Eiríkssonar og verður Kvennakór Suðurnesja fyrsti íslenski kórinn til að koma fram á þessari hátíð. Kórinn verður því á þjóðlegu nótunum og syngur eingöngu íslensk lög á tónleikunum; þjóðlög, ættjarðarlög, dægurlög, trúarlega tónlist og lög eftir íslensk samtímaskáld.
Stjórnandi Kvennakórs Suðurnesja er Dagný Þórunn Jónsdóttir og meðleikari á píanó er Geirþrúður Fanney Bogadóttir.
Kórkonur hafa tekið sér ýmislegt fyrir hendur í fjáröflunarskyni til að fjármagna starfsemi kórsins og ferðina sem framundan er. Þær hafa m.a. tekið að sér hlutverk í kvikmyndum og leikverki, tínt rusl á flugvallarsvæðinu og haldið kökubasara. Stærsta verkefnið var þó bæjarhátíðin Sandgerðisdagar sem haldin er í lok ágúst ár hvert í Sandgerði. Kórkonur hafa séð um skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar undanfarin tvö sumur og hefur verið mikil ánægja með störf þeirra. Auk þessa hefur Reykjanesbær gert þjónustusamning við kórinn mörg undanfarin ár og stutt myndarlega við starf hans. Ýmis fyrirtæki hafa einnig styrkt kórinn og kunna kórkonur öllum þessum aðilum miklar þakkir fyrir stuðninginn.
Tónleikarnir verða sem áður segir í Guðríðarkirkju mánudaginn 29. september kl. 20:00. Miðaverð er 1500 kr. og verður miðasala við innganginn.