Hjá Kvennakór Akureyrar hófst haustönnin af fullum krafti 9. september. Æft er að jafnaði einu sinni í viku síðdegis á sunnudögum og kórstjóri er sem fyrr Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.
Aðalfundur félagsins var haldinn 16. eptember og var stjórnin endurkjörin með þeirri undantekningu að gjaldkerinn Anna Breiðfjörð Sigurðardóttir lét af störfum en í hennar stað kom Sigríður Jónsdóttir.
Stjórnina skipa þá Þórunn Jónsdóttir formaður, Halla Sigurðardóttir varaformaður, Sigríður Jónsdóttir gjaldkeri, Valdís Þorsteinsdóttir ritari og Margrét Ragúels, meðstjórnandi.
Fyrsta verkefni haustsins var að syngja í Bleikri messu í Akureyrarkirkju 14. október en sú messa er helguð baráttunnni við krabbamein og var þar tekið við framlögum til Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis. Næsta verkefni var svo að syngja á Ráðhústorgi á baráttufundi kvennafrídagsins 26. október.
Æfingahelgi var haldin 28. október á Hótel Natur á Svalbarðsströnd. Æfingar stóðu yfir allan laugardaginn og fram til klukkan 2 á sunnudeginum. Á laugardagskvöldinu var kvöldvaka og sameiginlegur kvöldverður. Æfingahelgin þótti takast mjög vel og var þar grunnur lagður að dagskrá fyrir jólatónleikana.
Næst á dagskrá hjá kórnum eru þá jólatónleikar og verða þeir haldnir kl. 20:00 fimmtudaginn 13. desember í Akureyrarkirkju. Nánar verður sagt frá þessum tónleikum þegar nær dregur.
Að lokum má geta þess að næsta sumar heldur kórinn í sína fimmtu utanlandsferð og verður þá stefnan tekin á kóramót í Verona á Ítalíu.