Tónleikum Kvennakórs Kópavogs, "Í suðrænni sveiflu", sem vera áttu í Digraneskirkju föstudaginn 22. mars, hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna mikilla veikinda í kórnum.
Ný tónleikadagsetning verður nánar auglýst síðar.
Tónleikum Kvennakórs Kópavogs, "Í suðrænni sveiflu", sem vera áttu í Digraneskirkju föstudaginn 22. mars, hefur verið frestað um óákveðinn tíma vegna mikilla veikinda í kórnum.
Ný tónleikadagsetning verður nánar auglýst síðar.
Kvennakór Kópavogs mun halda sína árlegu vortónleika þann 22. mars n.k. í Digraneskirkju. Þema tónleikanna er suðræn sveifla, tangótaktur og latínó dansar og sungið um ástir og örlög. Lagavalið er fjölbreytt, suðrænt og seiðandi, taktfast og tregafullt með dillandi tangótakti í bland. Lögin sem flutt verða eru sem dæmi „Tvö ein í tangó“, „Um þig“, „La Cucaracha“, „El Cumbanchero“, „Bei mir bist du schein“, „Volare“ ofl. Á tónleikunum koma fram gestasöngvararnir Bogomil Font og Kristjana Stefánsdóttir. Einnig mun Stúlknakór Kópavogs syngja. Stjórnandi kórsins er Gróa Hreinsdóttir. Píanóundirleik annast Helga Laufey Finnbogadóttir, á bassa leikur Þorgrímur Jónsson og Axel Haraldsson slær á trommur.
Tónleikarnir eru jafnframt liður í fjáröflun kórsins fyrir ferð til Ísafjarðar í apríl n.k. og verður Kvennakór Ísafjarðar þar sóttur heim. Von er á að Ísafjarðarbær verði þéttskipaður syngjandi konum því einnig verða Kvennakór Öldutúns í Hafnarfirði og kór frá Levanger í Noregi sem heitir Corevie staddir þar í heimsókn. Á Ísafirði verða haldnir stórtónleikar þessara fjögurra kóra.
Mikið fjör hefur verið í Kvennakór Kópavogs við æfingar og val á búningum fyrir tónleikana í Digraneskirkju. Í takt við suðræna tónlist ætlar kórinn að halda óborganlega skemmtilega tónleika. Tónleikarnir hefjast klukkan kl. 20:00 en húsið opnar kl. 19:15. Miðar verða seldir við innganginn og hjá kórfélögum og er aðgangseyrir aðeins kr. 2.000,-. Heimasíða kórsins er www.kveko.is.
Þann 5. apríl nk. verða liðin 10 ár frá stofnun Gígjunnar, landssambands íslenskra kvennakóra.
Sú hugmynd kom fram á stjórnarfundi Gígjunnar í haust að leita eftir tónskáldi til að semja lag í tilefni þessara tímamóta. Samþykkt var að leita til Þóru Marteinsdóttur tónskálds og tók hún einkar vel í beiðnina.
Þóra samdi mjög fallegt lag og útsetti það fyrir kvennakór og píanó. Ljóðið við lagið er eftir skáldkonuna Huldu eða Unni Benediktsdóttur Bjarklind og heitir „Breyttur söngur“ en texti þess á vel við á þessum tímamótum.
Til að fjármagna verkið var sótt um styrk fyrir Tónverkasjóð Gígjunnar til Hlaðvarpans og hlaut verkefnið rausnarlegan styrk. Styrkurinn var formlega afhentur þann 3. janúar sl. og tók Anna Laxdal Þórólfsdóttir formaður Gígjunnar við honum fyrir hönd Tónverkasjóðsins.
Lagið var sent aðildarkórum Gígjunnar í janúar með ósk um að allir kórar sambandsins setji lagið á dagskrá sína í vor og að það verði sérstaklega kynnt á tónleikum kóranna í tilefni afmælisins.
Um næstu helgi stendur Freyjukórinn fyrir söngbúðunum "Syngjandi konur á Vesturlandi". Að lokinni stórskemmtilegri sönghelgi með Kristjönu Stefánsdóttur og yfir 80 konum víðsvegar frá Vesturlandi verður boðað til tónleika.
Á efnisskránni eru hress og skemmtileg lög úr öllum áttum.
Einsöngvari er Kristjana Stefánsdóttir. Hljómsveitin, sem skipuð er vel völdum listamönnum, samanstendur af Einari Þór Jóhannssyni á gítar, Kjartani Valdimarssyni á píanó, Sigurði Jakobssyni á bassa og Sigurþóri Kristjánssyni á trommur.
Stjórnandi tónleikanna er Zsuzsanna Budai.
Aðgangseyrir er kr. 1500 en frítt er fyrir börn 12 ára og yngri.
Tónleikastaðir:
Borgarnes, Hjálmaklettur, sunnudaginn 3. mars kl. 17:00.
Stykkishólmur, Stykkishólmskirkja, fimmtudaginn 7. mars kl. 20:00.
Akranes, Vinaminni, föstudaginn 8. mars kl. 20:00.
Reykjavík, Fríkirkjan, laugardaginn 9. mars kl. 17:00.
Freyjukórinn hvetur alla til að koma á þessa einstöku tónleika, þar sem gleðin ein ræður ríkjum.