Sunnudaginn 6. maí n.k. leggur Kvennakór Akureyrar land undir fót til Siglufjarðar. Kórinn er þó ekki einn á ferð því með í för er Karlakór Akureyrar - Geysir og ætla kórarnir að halda sameiginlega tónleika í Siglufjarðarkirkju. Karlakór Siglufjarðar tekur á móti kórunum og syngur nokkur lög með Karlakór Akureyrar-Geysi. Jónas Þór Jónasson syngur einsöng með kórnum og kvartett skipaður félögum úr Karlakór Akureyrar-Geysi tekur einnig lagið.
Söngskráin er afar fjölbreytt og má þar finna bæði íslensk og erlend lög, allt frá þjóðlögum til nýrri tónsmíða. Sungin eru lög við ljóð kunnra höfunda svo sem Davíðs Stefánssonar, Jónasar Hallgrímssonar, Steingríms Thorsteinssonar, Megasar o.fl. en einnig syngja kórarnir á ensku, þýsku, ítölsku og japönsku svo nokkuð sé nefnt.
Kvennakór Akureyrar er á leið í söngferðalag til Kanada í ágúst næstkomandi og er því efnisskráin orðin afar þjóðleg og fjölbreytt.
Stjórnandi Kvennakórs Akureyrar er Daníel Þorsteinsson og mun hann einnig annast undirleik. Stjórnandi Karlakórs Akureyrar-Geysis er Valmar Väljaots.
Tónleikarnir í Siglufjarðarkirkju hefjast kl. 15:00, miðar seljast við innganginn og kosta kr. 2000.- . Að loknum tónleikum þiggja kórfélagar veitingar á Kaffi Rauðku, áður en haldið verður heim á leið.
UNIVERSITY OF MANITOBA WOMEN’S CHORUS er kvennakór frá háskólanum í Winnipeg í Kanada, undir stjórn dr. Elroy Friesen. Kórinn var stofnaður árið 1990 og hefur komið fram við ýmis tækifæri auk eigin tónleika. Meðal annars hefur hann sungið með Winnipeg Symphony Orchestra, Prairie Voices, Canzona, Musik Barock og á tónlistarhátíðinni New Music Festival, svo að eitthvað sé nefnt. Í kórnum eru nemar úr tónlistardeild háskólans, starfsmenn skólans og fólk víðar úr samfélaginu.
Kórinn er nú í sinni fyrstu utanlandsferð og tekur 21 kórfélagi þátt í ferðinni og einnig er 7 manna málmblásarasveit með í för. Á efnisskrá kórsins er kirkjuleg tónlist og veraldleg, frá Kanada og Bandaríkjunum, og einnig syngur kórinn nokkur íslensk lög.
Kórinn tekur þátt í þrennum tónleikum á höfuðborgarsvæðinu vikuna 1.-5. maí 2012:
- Þriðjudaginn 1. maí kl. 20:00 í Háteigskirkju kemur kórinn fram ásamt Kvennakór Háskóla Íslands undir stjórn Margrétar Bóasdóttur og Kvennakór Kópavogs undir stjórn Gróu Hreinsdóttur.
- Föstudaginn 4. maí kl. 12:30 syngur kórinn á hádegistónleikum á Háskólatorgi ásamt Kvennakór Háskóla Íslands.
- Föstudaginn 4. maí kl. 20:00 flytur kórinn alla efnisskrá sína í Digraneskirkju.
Akureyringum gefst svo kostur á að hlýða á kórinn í anddyri Hofs mánudaginn 7. maí kl. 17:00 þar sem kórinn syngur fyrir gesti og gangandi.
Kórinn kemur fram á nokkrum öðrum stöðum, en þar er helst að nefna tónleika ásamt Reykjalundarkórnum í Fríkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 6. maí kl. 17:00. Þær munu einnig syngja við messur í Háteigskirkju sunnudaginn 6. maí og í Hallgrímskirkju sunnudaginn 13. maí auk þess að syngja á hjúkrunarheimilum og í Ljósinu.
Aðgangur að öllum tónleikum er ókeypis en tekið er á móti frjálsum framlögum að afloknum tónleikum.
Kvennakórinn Senjóríturnar heldur sína árlegu vortónleika í Grensáskirkju laugardaginn 5. maí kl. 14:00.
Á skemmtilegri efnisskrá eru bæði innlend og erlend lög.
Senjóríturnar eru sjálfstæð deild innan Kvennakórs Reykjavíkur. Söngkonur eru allar 60+ ára og hafa margar langan söngferil að baki.
Stjórnandi kórsins er Ågota Joó og undirleikari Vilberg Viggósson.
Aðgangseyrir er kr. 1500 fyrir fullorðna og kr. 600 fyrir börn. Ekki verður posi til að taka við kortagreiðslum á staðnum og eru tónleikagestir því vinsamlega beðnir um að hafa pening meðferðis.
Það er okkur öllum mikill harmur að sjá á eftir einni skærustu og bestu söngkonu síðari ára deyja langt fyrir aldur fram aðeins 48 ára gömul.
Whitney Houston kom inn í tónlistarbransann eins og stormsveipur og vann hug og hjörtu allra sem á hana hlýddu..
Við höfum henni margt að þakka og þá ekki síst fyrir það hvernig hún setti markið hærra og hefur fyllt okkur löngun til að ná lengra, fyrir það erum við þakklát. Við viljum því heiðra minningu stjörnunnar og boða til tónleika þar sem tekin verða hennar bestu lög.
Tónleikarnir verða haldnir í Austurbæ þann 4. maí kl. 20.00 en húsið mun opna kl. 19.00
Fram koma þau Jóhanna Guðrún, Íris Hólm, Hanna Guðný, Ína Valgerður, Guðrún Árný ásamt Magna og
Kvennakór Reykjavíkur.
Hljómsveit skipa þeir Benedikt Brynleifsson (trommur), Ingvar Alfreðsson (hljómborð), Kristján Grétarsson (gítar) og Róbert Þórhallsson (bassa)
Miðasala er á midi.is
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs