Landsmót íslenskra kvennakóra verður haldið á Selfossi nú um helgina og verður þetta langstærsta kvennakóramót sem haldið hefur verið á Íslandi en um 600 konur úr 23 kórum eru skráðar á mótið. Þrennir tónleikar verða haldnir á landsmótinu, tvennir tónleikar verða á laugardaginn 30. apríl þar sem kórarnir koma fram hver fyrir sig. Þeir fara fram á tveimur stöðum, í Iðu og Selfosskirkju og hefjast báðir kl. 16. Á sunnudaginn 1. maí kl. 15 verða síðan hátíðartónleikar í Iðu þar sem kórarnir koma fram nokkrir saman í hópum og svo 600 konur í risastórum kór ásamt Stórsveit Suðurlands. Aðgangur er ókeypis á tónleikana á laugardeginum en miðaverð er aðeins kr. 1500 á hátíðartónleikana á sunnudeginum. Það er því tilvalið að fá sér bíltúr á Selfoss um helgina og mæta á flotta tónleika.
Nú er bara vika í landsmótið okkar og því er tímabært að huga að því hverju má alls ekki gleyma að pakka niður í töskuna. Fyrst skal nefna kórdressið, síðan er það vinnuheftið góða með öllum nótum mótsins. Fyrir óvissuferðina er nauðsynlegt að hafa hlýjan útivistarfatnað og góða skó og hvetjum við alla til að mæta í hana – því Jórur lofa frábærri ferð. Partýdress fyrir laugardagskvöldið er gott að hafa með en því má einnig redda á Selfossi í hinum mörgu verslunum sem þar eru. Að sjálfsögðu verður góða skapið með í för og einnig verður nóg af því á staðnum.
Á heimasíðu Jórukórsins www.jorukorinn.is og hér á gigjan.is eru allar upplýsingar um mótið. Þar er t.d. dagskrá mótsins, tónleikaskrá og skipting kóra á milli tónleikastaða á laugardeginum, endilega hvetjið ykkar fólk til þess að taka sér bíltúr á Selfoss þessa helgi og mæta á flotta tónleika. Einnig er þar matseðill mótsins og ef einhverjar sér óskir eru með matinn á hátíðarkvöldverðinum hafið þá samband við Jórukonur og þær munu reyna að koma til móts við þær. Á heimasíðu Jórukórsins er einnig hægt að hlusta á landsmótslagið, bæði með og án stórsveitar og einnig hverja rödd fyrir sig.
Skráningu á mótið er að ljúka og eru tæplega 600 konur skráðar til leiks og því er þetta stærsta landsmót sem haldið hefur verið.
Við hittumst því hressar og kátar næsta föstudag og leggjumst allar á bæn með það að veðrið lagist eitthvað og vorið fari að koma.
Íslenski Kvennakórinn í Kaupmannahöfn heldur tónleika í Fella-og Hólakirkju, Hólabergi 88, fimmtudaginn 28.apríl, kl. 20:00.
Á dagskrá er m.a. tónlist eftir Báru Grímsdóttur og færeyska tónskáldið Pauli í Sandagerði, dönsk sumarlög og sígildar íslenskar perlur.
Guðný Einarsdóttir leikur á orgel og áheyrendum mun gefast kostur á að taka lagið.
Stjórnandi kórsins er Sigríður Eyþórsdóttir.
Aðgangseyrir er kr. 1000,-.
Í nógu er að snúast þessa dagana hjá Kvennakór Kópavogs. Í byrjun mars fóru kórfélagar í æfingabúðir austur fyrir fjall og þöndu raddböndin heila helgi. Hápunktur ferðarinnar var þó hátíðarkvöldverður og kvöldvaka sem var að venju mjög skemmtileg. Þema kvöldsins var rokk og ról og brugðu kórkonur sér í margs konar líki. Hinar virðulegustu konur breyttust í harðsvíraða rokkara sem slógu um sig með óvönduðu orðbragði og grófu látbragði. Í hópnum mátti einnig finna pönkara með gaddaólar og barmmerki og afar penar konur sem klæddust hringskornum pilsum og doppóttum skyrtum í anda Grease.
Heilmikið er framundan hjá kórnum. Dagana 29. apríl til 1. maí 2011 ætlar hluti kórkvenna á Landsmót Kvennakóra á Selfossi en þar koma saman fjöldi kvennakóra allstaðar að af landinu. Vortónleikar kórsins verða svo haldnir þann 17. maí n.k. í Hörðuvallaskóla þar sem flutt verður lífleg og skemmtileg dagskrá og verður þar tvímælalaust um að ræða frábæra skemmtun og góða stemmningu. Botninn verður svo sleginn í vetrarstarfið með söngferðalagi. Þann 10. júní n.k. leggur Kvennakór Kópavogs land undir fót og er stefnan tekin á Leeds í Englandi. Þar er starfræktur vinakór Kvennakórsins sem kallar sig Good in parts og munu kórkonur njóta gestrisni breskra vina meðan á dvölinni stendur.
Kvennakór Kópavogs á tíu ára afmæli á næsta starfsári. Núverandi kórstjóri lætur af störfum í vor og þess vegna leitar kórinn nú að sterkum og hressum stjórnanda fyrir næsta vetur. Mikil gleði og bjartsýni ríkir í Kvennakór Kópavogs og horfa kórkonur kátar fram á næsta áratug.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs