Kertaljós, kaffiilmur og konfektmolar fyrir jafnt augu, eyru sem og bragðlauka settu svip sinn á Góugleði Kvennakórs Garðabæjar sem haldin var í Kirkjuhvoli í Garðabæ 3. mars sl. í samstarfi við Menningarmálanefnd Garðabæjar.
Halla Margrét Jóhannesdóttir leikkona brá sér í hlutverk veislustjóra og sló taktinn strax í upphafi með sögum í léttum dúr af mönnum og málefnum. Skemmtileg upprifjun bernskuáranna í Garðabænum hitti beint í mark.
Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, minnti okkur öll á hversu mikilvægt jákvætt hugafar er við leik og störf er hún varpaði fram hverri myndrænni frásögninni af annarri í hugvekju sinni. Valið er okkar, er glasið hálf fullt eða hálf tómt?!
Tónlistin skipaði stóran sess á kvöldinu og af nógu var að taka. Aron Örn Óskarsson nemandi í rafgítarleik við Tónlistarskóla Garðabæjar heillaði gesti með leik sínum. Bæjarlistamaður Garðabæjar 2010, Agnar Már Magnússon,djasspíanóleikari, ásamt bassaleikaranum Þorgrími Jónssyni tóku nokkur lög við góðar undirtekir gesta. Boðið var upp á óvæntan glaðning þegar Sigríður Lárusdóttir, söngnemi við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar söng tvö lög við meðleik Sigurðar Marteinssonar, píanóleikara. Sigríður undirbýr sig nú fyrir útskrift af framhaldsstigi þann 1.apríl n.k. er hún syngur lokatónleika sína.
Kvennakór Garðabæjar hóf og lauk Góugleði á flutningi íslenskra og erlendra kórverka undir stjórn Ingibjargar Guðjónsdóttur við píanóundirleik Sólveigar Önnu Jónsdóttur. Ekki spillti fyrir að í lokalagi kórsins léku þeir Agnar Már og Þorgrímur með kórnum.
Í tilefni af landssöfnunarátaki styrktarfélagsins Lífs, klæddust kórkonur bol félagsins og tóku þannig þátt í að styrkja kvennadeild Landspítalans.
Kórinn þakkar þeim sem komu að vel heppnaðri Góugleði hjartanlega fyrir og óskar öllum gæfu og gleði við hækkandi sól.