Kvennakór Kópavogs á tíu ára starfsafmæli á næsta ári. Stefnt er að metnaðarfullum og skemmtilegum verkefnum næsta vetur en þar sem núverandi kórstjóri er að hætta vantar kórinn sterkan og hressan kórstjóra í hans stað.
Nánari upplýsingar um kórinn má finna á heimasíðu hans og einnig með því að senda póst á netfang kórsins eða hafa samband við formann kórsins, Sigríði Tryggvadóttur, í síma 846-7915.
Umsókn um starfið skal senda á netfang Kvennakórs Kópavogs fyrir 15. apríl 2011.
Salka kvennakór á Dalvík mætir á sitt fyrsta landsmót í vor. Hér er fréttapistill frá kórnum.
Af Sölku er það að frétta að 19 meðlimir af 21 koma á kóramót á Selfossi 29. apríl. Það er mikil tilhlökkun í hópnum og mikill tími hefur farið í að skipuleggja fjáröflun vegna ferðarinnar. Meðlimir hafa tekið sér ýmislegt fyrir hendur til að afla fjár. Leitað hefur verið til fyrirtækja á svæðinu sem hafa styrkt okkur.
Við höfum selt ýmsan varning eins og páskaegg, harðfisk og lakkrís.
Salka stóð fyrir flóamarkaði 12. febrúar sem við kölluðum Klemmuport og var þar vísað í verslunarmiðstöð okkar Dalvíkinga, Klemmuna. Skemmst er frá því að segja að markaðurinn sló í gegn og fengum við mikil og jákvæð viðbrögð frá söluaðilum og gestum sem þótti þetta skemmtileg nýbreytni. Það tókst svo vel til að ákveðið var að halda annan markað 12. mars næstkomandi og jafnvel stendur til að halda þriðja markaðinn áður en við leggjum í hann suður. Það er líka gaman að segja frá því að hugmyndina fengum við frá Jórukonum sem halda árlega markað á Selfossi. Miðað við viðtökur eru allar líkur á að þetta verði í framhaldinu árlegur viðburður hjá kórnum.
Salka er ungur kór, við erum því sérstaklega spenntar að mæta á okkar fyrsta kóramót og hitta aðrar kórkonur og mynda tengsl við aðra kvennakóra með frekara samstarf í huga.
Við hlökkum til að hitta ykkur á Selfossi í apríl.
Það er mikið um að vera í Domus Vox, sönghúsi Margrétar J. Pálmadóttur, þessa dagana því kórsysturnar þar efna til Maraþontónleika í Grensáskirkju nk. sunnudag 6. mars. Dagskráin hefst með messu í Grensáskirkju kl. 11, Stúlknakór Reykjavíkur leiðir sönginn. Að messu lokinni hefst samfelld dagskrá, með fallegri tónlist tengdri kærleika og trú, í kirkjunni og safnaðarheimilinu, Þar koma fram Margrét J. Pálmadóttir söngstjóri, Stúlknakór Reykjavíkur, kvennakórarnir Cantabile og Vox feminae, Hanna Björk Guðjónsdóttir einsöngvari, Guðrún Árný Guðmundsdóttir kórstjóri ásamt píanóleikurunum Antoníu Hevesi og Halldóri Smárasyni.
Yfirskrift tónleikanna er Bollufjör Domus Vox, því frá kl. 13:30 - 16:30 verður bollukaffi og markaðsstemning í safnaðarheimili kirkjunnar. Tónleikagestum gefst kostur á að njóta sönggleðinnar sem ríkir í þessum stóra, söngelska hópi og að gera góð kaup á markaðnum. Bollukaffi er innifalið í mjög fjölskylduvænu miðaverði. Allar kórkonur eru hvattar til að gera sér og sínum glaðan dag. Miðar fást við innganginn.
Um 600 konur hafa skráð sig Landsmótið í vor og erum við í Jórukórnum alveg himinlifandi yfir þessari frábæru þátttöku. Skráðir eru 23 kórar víðsvegar að af landinu. Búið er að skipta kórunum niður í vinnuhópa og vonum við að allir séu sáttir, en að sjálfsögðu komast ekki allir í þann hóp sem þeir völdu í fyrsta sæti. Ákveðið var að útbúa vinnuhefti með öllum nótum mótsins og eiga allir að vera búnir að fá það í hendur, ef svo er ekki endilega hafði þá samband við landsmótsnefndina.
Jórukórinn hefur opnað nýja heimasíðu www.jorukorinn.is og hvetjum við ykkur til þess að skoða hana en þar eru ýmsar upplýsingar um Landsmótið og einnig um Jórukórinn. Fljótlega munum við gefa út dagskrá mótsins en hún verður með svipuðu sniði og síðustu mót. Mótsgjaldið liggur ekki alveg fyrir en það mun allavega ekki fara yfir 20 þús kr.
Á laugardeginum 30.apríl verða tónleikar þar sem flestir kórarnir syngja 2-3 lög einir og munum við fljótlega kalla eftir upplýsingum um hvaða lög það verða.
Bestu kveðjur frá Jórukórnum Selfossi
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs