Tónleikar til styrktar Mæðrastyrksnefnd Akureyrar.
Þann 21. nóvember nk. heldur Kvennakór Akureyrar sína árlegu styrktartónleika fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar. Að þessu sinni fær kórinn til liðs við sig Æskulýðskór Glerárkirkju undir stjórn Olgu Ásrúnar Stefánsdóttur og undirleikari er Risto Laur. Kvennakórnum stjórnar að venju Daníel Þorsteinsson sem einnig er undirleikari.
Efnisskráin er fjölbreytt, þar verða íslensk og erlend lög, bæði jólalög og ekki jólalög, þar sem enn verður rúmur mánuður til jóla þegar tónleikarnir eru haldnir.
Þetta er í 9. sinn sem kórinn heldur tónleika til styrktar Mæðrastyrksnefnd og nú á tímum er ekki síst þörf fyrir allan þann stuðning sem hægt er að veita þeim sem lítið hafa milli handanna þegar jólahátíðin nálgast.
Við viljum því hvetja sem flesta til að mæta í Akureyrarkirkju þennan dag, hlusta á fallega tónlist og styrkja um leið gott málefni.
Tónleikarnir verða í Akureyrarkirkju 21. nóvember kl. 16:00 og miðaverð er 2000 krónur.