O magnum mysterium
Tónleikar Vox feminae á allra heilagra messu:
Kristskirkja Landakoti, fimmtudaginn 4. nóvember kl. 20.30
Reykholtskirkja í Borgarfirði, við og eftir messu sunnudaginn 7. nóvember kl. 14.00
Hafnarfjarðarkirkja, miðvikudaginn 10. nóvember kl. 20.30
Lífið er leyndardómur. Allra heilagra messa er Vox feminae sérstaklega hjartfólgin því þá hefur kórinn jafnan haldið dulmagnaða tónleika. Á þeim árstíma skynjum við sterkt sagnaarf kynslóðanna um að einmitt þá séu skilin milli heimanna þynnst.
Að þessu sinni hefur Margrét J. Pálmadóttir, listrænn stjórnandi kórsins, valið til flutnings undurfögur trúarleg verk frá endurreisnartímanum, m.a. eftir tónskáldin Palestrina, Orlando di Lasso og Tomás Luis de Victoria, auk tveggja sálma Þorkels Sigurbjörnssonar sem bera stílbragð liðinna tíma. Jafnframt mun Stefán S. Stefánsson ljá kórnum spuna sinn á saxófón við sum verkanna.
Slíka tónlist er ekki hægt að flytja án undirbúnings. Septembermánuður fór í nótnastagl en fyrstu helgina í október brugðum undir okkur betri fótunum og brunuðum í æfingabúðir á þeim kyngimagnaða stað Hellnum á Snæfellsnesi. Hauststemningin, með allri sinni litadýrð bæði á himni sem jörðu, var nær ólýsanleg og allur viðgjörningur staðarhaldara, bæði þessa heims og annars, var til mikils sóma. Við æfðum langt fram á föstudagskvöldið og frá morgni til kvölds á laugardeginum, nema hvað við gengum um miðjan dag í blíðviðrinu út á Arnarstapa.
Kvöldvakan var með þjóðlegu ívafi þar sem svipir liðinna tíma reikuðu um sali. Þar komu m.a. Bárður Snæfellsáss, Kolbeinn Jöklaskáld og Þórður á Dagverðará við sögu og síðast en ekki síst astraltertu gubbandi geimverur. En hætta ber hverjum leik þá hæst hann ber og allar fórum við snemma í háttinn til þess að vera nú með á nótunum daginn eftir.
Seinnipart sunnudagsins kvöddum Snæfellsnesið útsungnar og með söknuði og keyrðum aftur inn í hversdagslegan veruleikan hér fyrir sunnan.
Nú er uppáhalds hátíðin okkar að ganga í garð og töfrarnir á næsta leiti, það eru dásamlegir tónleikar framundan. Ef þið viljið njóta þeirra með okkur má nálgast miða í Domus Vox Laugarvegi 116 (sími: 511 3737), hjá kórfélögum og við innganginn.
Að tónleikunum loknum mun Margrét kórstjóri árita da capo, nýútkomna ljósmyndabók Vox feminae.
Kvennakór Akureyrar tekur þátt í kóramóti sem haldið er í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri laugardaginn 23. október. Alls taka 24 kórar þátt í dagskránni sem stendur frá kl. 10:00 til 18:30. Kórarnir, sem eru af öllum stærðum og gerðum af starfssvæði Eyþings koma saman í Hofi og flytja ljúfa tóna frá morgni til kvölds. Hver kór syngur í 20 mínútur og í lokin sameinast þeir og syngja allir saman. Sungið verður í salnum sem fengið hefur nafnið Hamraborgin og er hann opinn gestum og gangandi á meðan á dagskránni stendur.
Á vefsetrinu Hof menningarhús má sjá nánar hvaða kórar koma fram og niðurröðun þeirra.
Nú höfum við í Jórukórnum á Selfossi tekið upp þráðinn eftir gott sumarfrí og hafið æfingar undir styrkri stjórn Helenu Káradóttur sem tók aftur við kórnum haustið 2009 eftir 5 ára hlé. En verkefni vetrarins eru ekki bara söngurinn, einnig erum við með það spennandi verkefni að undirbúa Landsmótið íslenskra kvennakóra næsta vor. Þetta er krefjandi verkefni sem við setjum allan okkar metnað í og hlökkum til að taka á móti ykkur hér á Selfossi 29. apríl – 1. maí 2011. Við erum sem sagt að vinna á fullu að skipulagningu mótsins, vinnuhóparnir eru að verða klárir, landmótslagið er í vinnslu og sameiginlegu lögin eru að komast á hreint.
Við í landsmótsnefndinni munum mæta á aðalfund Gígjunnar 23. október og vera þar með kynningu á mótinu. Það væri gott að fá upplýsingar, annað hvort á fundinum eða fljótlega eftir hann, um hvaða kórar stefna að því að mæta á mótið. Endanleg skráning og greiðsla staðfestingagjalds fer síðan fram síðar í vetur. Nú þegar hafa nokkrir kórar haft samband og tilkynnt þátttöku. Þetta lítur því alls saman mjög vel út.
Að lokum viljum við benda á nýtt gistiheimili hér á Selfossi sem tekur um 60 manns. Það er staðsett við aðalgötu bæjarins og er hægt að finna upplýsingar um það á þessu vefsetri. Við höfum samið við eigandann að gisting í upp á búnu rúmi verði 3.000 kr fyrir konu og morgunverður á 1.000 kr.
Laugardaginn 2. október var haldinn æfingadagur í Valsárskóla á Svalbarðseyri. Æfingar hófust kl. 9 um morguninn og stóðu til kl. 17:30.
Að þessu sinnu fékk kórinn góðan gest, því að Margrét Bóasdóttir, sópransöngkona og margreyndur og lærður kórstjóri var Daníel til aðstoðar.
Það er ekki ofsögum sagt að þetta kom mjög vel út, því Margrét fræddi kórkonur um ýmis praktísk atriði í söngnum og leiðbeindi einnig um það sem betur mátti fara.
Í kaffi og matarhléum sáu kvenfélagskonur á Svalbarðsströnd um það að enginn væri svangur og voru veitingarnar hjá þeim aldeilis frábærar.
Framundan hjá kórnum er svo þátttaka í kórahátíð í Menningarhúsinu Hofi 23. október, en þar munu 27 kórar af öllum stærðum og gerðum koma fram frá því kl. 10 um morguninn og syngja síðan saman að lokum um kl. 19:00 21. nóvember verða svo árlegir styrktartónleikar fyrir Mæðrastyrksnefnd Akureyrar haldnir í Akureyrarkirkju og verður nánar sagt frá því síðar.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs