Kvennakór Reykjavíkur mun halda vortónleika sína í Lindakirkju sunnudaginn 9. maí kl. 17:00 og kl. 20:00.
Tímamót eru nú hjá kórnum þar sem nýr stjórnandi, Ágota Joó, hefur nú tekið við stjórn kórsins. Þetta eru fyrstu tónleikar hennar með kórnum og má með sanni segja að tónar berist frá öllum heimshornum, því sungið
verður á 7 tungumálum. Efnisskráin er að vanda fjölbreytt, hátíðlegt fyrir hlé og síðan slegið á léttari strengi eftir hlé.
Kórinn mun syngja hugljúf verk eftir eldri meistara svo sem Rossini og Schumann; seiðandi tangó eftir Piazzolla og sveiflutónlist sem er nýrri af nálinni eftir Luis Prima, Aron Copland og John Davenport og nýlegt ungverskt tónverk eftir József Karai, svo nokkuð sé nefnt.
Píanóleikari verður Vignir Þór Stefánsson og með honum leika Vadim Fjodorov á harmóníku, Gunnar Hilmarsson á gítar og Leifur Gunnarsson á kontrabassa.
Miða er hægt að fá hjá kórkonum eða panta í síma 896-6468 (eftir kl. 16), og svo við innganginn.
Sjáumst á tónleikunum 9. maí.