Kvennakór Öldutúns æfði í vetur kafla úr Stabat Mater eftir Pergolesi. Verkið var flutt í heild sinni 27. mars í Hafnarfjarðarkirkju. Þátttakendur voru Kvennakór Öldutúns, nemendur úr Söngskóla Domus vox, Hanna Björk Guðjónsdóttir sópran, Svava Kristín Ingólfsdóttir alt, Guðmundur Sigurðsson orgel og strengjakvartett. Einnig flutti Kvennakór Öldutúns trúarlega tónlist úr ýmsum áttum.
Kvennakór Öldutúns fór í æfingabúðir að Hótel Hamri í Borgarfirði 19. og 20. febrúar. Þar var frábært að vera fyrir utan söngaðstöðuna. Það hljómaði sérstakleg illa þar, ekkert í umhverfinu sem hjálpaði tóninum að lifa.
Í vor nánar tiltekið 28. og 29. maí heldur Kvennakór Öldutúns till Akureyrar. Þar á kórinn stefnumót við Karlakór frá Akureyri. Ekki er enn ákveðið hvar tónleikarnir verða en hugmynd er að halda þá í Hrísey. Konurnar flytja þar lög frá norðurlöndum og svo koma kórarnir til með að syngja saman nokkur lög.
Kúrekar, feneyskar grímudansmeyjar og blómarósir mættu á kvöldvökuna!
Borgarfjörður skartaði sínu fegursta þegar rúta með Kvennakór Garðabæjar renndi í hlað á Bifröst á laugardagsmorgni þann 20. mars síðastliðinn. Heimamenn á Bifröst tóku sérdeilis vel á móti kórnum, uppbúin rúm biðu kvennanna í þægilegum tveggja manna herbergjum og auk þess er í skólanum hin ákjósanlegasta aðstaða til kóræfinga.
Æfingabúðir um þetta leyti árs eru orðnar að fastri hefð hjá kórnum og eru eitt helsta tilhlökkunarefni kórkvenna á vorönn. Þéttar og langar æfingar í tvo daga skila geysilega góðum árangri og vináttuböndin styrkjast.
Þótt megin tilgangur æfingabúða sé vitanlega sá að fínpússa og fegra kórverkin sem flutt verða á komandi vortónleikum gefa kórkonur sér þó tíma til að brjóta upp stíft æfingaprógramm og bregða á leik. Kórinn fékk hátíðasal skólans til afnota á laugardagskvöldið og skreytti hann fagurlega. Kórkonurnar klæddu sig upp í hina ýmsu búninga en hver rödd hafði ákveðið eigið þema. Fyrsti sópran birtist sem kúrekar norðursins, annar sópran sem seiðandi feneyskar grímudansmeyjar og altinn mætti sem rómantískar blómarósir. Kórkonur skemmtu síðan hver annarri með heilmatilbúnum skemmtiatriðum og, síðast en ekki síst, gæddu sér á gómsætri veislumáltíð sem kokkur staðarins töfraði fram. Þótt dansað væri og sungið fram eftir kvöldi voru þó allar mættar til æfinga á tilsettum tíma á sunnudagsmorgni til áframhaldandi æfinga fram eftir degi. Raddböndin urðu fljótt flauelsmjúk aftur eftir uppsöngsæfingar kórstjórans, Ingibjargar Guðjónsdóttur, sem að sjálfsögðu stýrði þessu langa æfingaferli fimlega með aðstoð píanóleikarans, Sólveigar Önnu Jónsdóttur.
Kvennakór Garðabæjar stendur nú á merkum tímamótum, er að ljúka tíunda starfsárinu og æfir af kappi fyrir veglega afmælistónleika í Langholtskirkju þann 2. maí næstkomandi þar sem hin ýmsu hljófæri munu koma við sögu. Við munum senda Gígjunni fréttir af þeim viðburði þegar nær dregur.
Æfingar hófust aftur eftir jólafrí þann 10 janúar og var þá farið að huga að dagskrá fyrir vorið eftir að hafa gert hlé á því fyrir jólalögin.
Á konudaginn 21. febrúar var haldinn GoRed dagur á Hótel Kea, en hann er haldinn til að efla fræðslu um forvarnir og áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum. Kórinn söng í upphafi og lok dagskrár og fékk mjög góðar viðtökur.
Næst á dagskránni er svo árshátíð kórsins sem haldin verður n.k. laugardag 13. mars í Bjargi við Bugðusíðu. Árshátíðarnefnd starfar á fullu við undirbúning og hver rödd fyrir sig undirbýr skemmtiatriði. Síðan verður borðað og sungið og dansað fram eftir nóttu.
Laugardaginn 20 mars verður svo æfingadagur í Valsárskóla á Svalbarðsströnd. Þar verður æft frá 10 – 18 og einnig hlýtt á erindi frá Valdísi Jónsdóttur talmeinafræðingi sem ætlar að ræða um raddböndin, raddbeitingu og raddvernd og kenna kórfélögum aðferð til að þjálfa raddböndin og ná betri öndunartækni.
Kvennakór Suðurnesja kemur í heimsókn í maí og verða haldnir sameiginleigir tónleikar með þeim 8. maí. Vortónleikar kórsins verða svo 30. maí n.k. en nánar verður sagt frá þessum tónleikum síðar..
Helgina 13. – 14. mars ætlar Vox feminae í æfingabúðir í Skálholti. Íbúum Suðurlands gefst kostur á að hlýða á söng kórsins tvisvar sinnum á sunnudaginn, annars vegar í messu í Skálholtskirkju kl. 11 og hins vegar í Þorlákskirkju í Þorlákshöfn kl. 14, þar sem söngurinn verður í fyrirrúmi.
Skálholt skipar sérstakan sess í huga kórfélaga Vox feminae enda fer kórinn reglulega þangað í æfingabúðir, syngur við messur og við önnur tækifæri. Það er kórnum einnig mikil ánægja að syngja nú í fyrsta sinn fyrir íbúa Þorlákshafnar og vonast til að sem flestir sjái sér fært að mæta og hlýða á söng kórsins.
Organisti í messunni er Hannes Baldursson.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs