Ágota Joó er nýr stjórnandi Kvennakórs Reykjavíkur. Ágota tók við stjórn kórsins í janúar 2010 og tók hún við af Sigrúnu Þorgeirsdóttur, sem hefur stjórnað kórnum farsællega í rúm 12 ár.
Ágota Joó er fædd í Ungverjalandi. Hún útskrifaðist frá Franz Liszt Tónlistarháskólanum í Szeged sem píanókennari, tónfræðikennari og kórstjóri. Hún flutti til Íslands árið 1988 og byrjaði kennslu við Tónlistarskóla Ísafjarðar. Árið 1991 flutti hún til Njarðvíkur og kenndi þar á píanó við Tónlistarskóla Njarðvíkur. Einnig var hún kórstjóri Kvennakórs Suðurnesja og Eldeyjar (kórs eldri borgara á Suðurnesjum) í nokkur ár. Hún var líka undirleikari Karlakórs Keflavíkur í mörg ár og lék m.a. inn á tvo diska með þeim. Hún starfar sem píanókennari við Tónskólann Do Re Mi sem hún stofnaði ásamt tveimur öðrum.
Ágota stjórnar einnig Senjorítum Kvennakórs Reykjavíkur.
Kvennakór Garðabæjar býður til tónlistarkvöldsins „Djass á Góu“ í gamla Hagkaupshúsinu á Garðatorgi.
Fimmtudaginn 25. febrúar, kl. 20.00, mun Kvennakór Garðabæjar efna til tónlistarveislu í gamla Hagkaupshúsinu á Garðatorgi. Á efnisskránni eru þekktar perlur, flestar íslenskar, sem færðar verða í líflegan djassbúning. Kaffihúsastemning með kertaljósum verður ríkjandi og léttleiki alls ráðandi. Í boði verða veitingar á vægu verði en aðgangur er ókeypis og öllum opinn.
Ásamt kórnum koma fram fjórir af færustu djassleikurum landsins; bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir, Matthías Hemstock og Tómas R. Einarsson. Það má segja að verið sé að endurtaka einstaklega skemmtilega tónleika kórsins frá vorinu 2006 þegar fyrrnefndir djass snillingar spiluðu með kórnum og heilluðu áheyrendur og kórkonur með spilamennsku sinni og líflegri framkomu.
Er það von Kvennakórs Garðabæjar og stjórnanda, Ingibjargar Guðjónsdóttur, að tónlistarunnendur fjölmenni í gamla Hagkaupshúsið á Garðatorgi fimmtudaginn 25. febrúar og fagni með kórnum á léttum nótum, á tíu ára starfsafmæli.
Hátíðin Kærleikar verður haldin föstudaginn 12. febrúar kl. 18:00 í hjarta Reykjavíkurborgar.
Okkur þætti vænt um ef kórinn þinn eða meðlimir úr þínum kór hefðu tök á að mæta og taka þátt í hátíðinni með því að syngja saman við Reykjavíkurtjörn ásamt öðrum kórum landsins. Lógó hátíðarinnar er í sama stíl og lógó Ólympíuleikanna nema hvað að hringirnir hafa breyst í hjörtu. Þema hátíðarinnar er að skapa samkennd, hvatningu sem veitir styrk og gjöf jákvæðra tilfinninga til hvers annars. Á þessari hátíð sameinumst við öll um kærleikann, kveikjum ljós í hjörtum og sendum saman jákvæða strauma út í samfélagið.
Hátíðin hefst á Austurvelli. Þar leggja ýmsir þekktir einstaklingar fram fallega hugsun um kærleikann og það sem tengir okkur saman. Þegar því er lokið göngum við kærleiksgöngu í kringum Tjörnina við undirleik Lúðrasveitarinnar Svanurinn. Gangan endar á túninu beint á móti Ráðhúsinu þar sem stytta Ólafs Thors er. Þar sameinast kórarnir á túninu og syngja undir stjórn Björns Thorarensen. Loks fleytum við kertum og sendum jákvæða strauma út í samfélagið og til þeirra sem við elskum.
Í fyrra er talið að um 3000 manns hafi mætt á hátíðina. Þar á meðal voru: Biskup Íslands, Allsherjargoðinn, Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfi, Brassband Samúels og félaga, Mannréttindastofa, Unifem, AUS, Rauði krossinn, Mótettukórinn, Óperukórinn, Kór Langholtkirkju, Söngraddir Reykjavíkur, Lavateatro, Leikhópurinn Sólin, félagar úr Leikhópnum Perlan, Friðarhús o.fl. Okkur þætti vænt um ef þinn kór gæti verið með í ár.
Lögin sem verða tekin eru:
Hver á sér fegra föðurland (fjórraddað án undirleiks)
Við gengum tvö (einraddað með undirleik)
Vísur Vatnsenda-Rósu (fjórraddað án undirleiks)
Kvæðið um fuglana (einraddað með undirleik)
Kenndu mér að kyssa rétt (einraddað með undirleik)
Nótur og textar að öllum lögunum voru sendar til Gígjunnar og má fá afrit af þeim með því að senda póst á gigjan2003(hjá)gmail.com.
Kórarnir munu standa efst í brekkunni fyrir aftan styttu Jóns Einarssonar "Úr álögum". Kórfólk er beðið um að vera eins framarlega og hægt er í göngunni svo það geti stillt sér strax upp og gangan kemur að styttunni. Litur hátíðarinnar er rauður og því er upplagt ef kórmeðlimir mæta með eitthvað rautt í klæðum t.d. rauðan trefil, vettlinga eða í rauðri peysu.
Með von um æðislega þátttöku.
Kærleikskveðja,
Bergljót Arnalds, hugmyndasmiður og verkefnastjóri
sími: 691 0099
Jórukórinn á Selfossi vill byrja á því að óska öllum kvennakórskonum nær og fjær gleðilegs árs með von um að nýju ári fylgi ljós og friður.
Við Jórur fögnum nýju ári með sól í hjarta og sól í sinni því mörg spennandi verkefni eru framundan hjá okkur, þar ber þó hæst undirbúningur fyrir Landsmótið 2011. Við erum komnar á fullt með skipulagninguna, dagsetningin er á hreinu eins og þið sjáið hér að ofan. Búið er að fá mótsstjóra, Margrét Bóasdóttir hefur samþykkt að taka það verkefni að sér og verður að segjast að þar komum við ekki að tómum kofanum. Margrét er hafsjór af hugmyndum og einnig með mikla reynslu á þessu sviði.
Við erum komnar með margar hugmyndir af skemmtilegum og áhugaverðum vinnuhópum og er líklegt að einhverjir munu tengjast sunnlenskum tónskáldum – en við nánari athugun eru þau býsna mörg og fjölbreytileiki þeirra líka mikill. Einnig höfum við sett okkur það markmið að hafa sameiginlegu lögin þannig að það verði ógleymanlegt að syngja þau í yfir 500 kvennakór.
Næsta skref er síðan að fá tónskáld til þess að semja fyrir okkur mótslagið og einnig að ræða við tónlistarmenn hér heima í héraði um samstarf.
Markmið okkar í Jórukórnum á Selfossi er að standa fyrir spennandi og skemmtilegu kvennakóramóti vorið 2011.
Við hvetjum alla kóra að taka þessa helgi frá og skella sér á Selfoss.
Öll bréf sem landsmótsnefndin sendir frá sér til aðildarkóra Gígjunnar eru sett undir linkinn Landsmót hér á vefsetrinu.
Eldri fréttir
-
Landsmót Gígjunnar haldið í maí 2023
-
Landsmóti frestað til 2023
-
Verklagsreglur um æfingafyrirkomulag á tímum samkomutakmarkana fyrir kvennakóra innan Gígjunnar
-
Landsmót Gígjunnar haldið 16-18 sept 2021
-
Landsmóti Gígjunnar frestað
-
Þorravaka Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólakveðja
-
Jólatónleikar Kvennakórs Hafnarfjarðar
-
Aðventutónleikar Kvennakórs Garðabæjar
-
Jólatónleikar Kvennakórs Kópavogs
-
Jólatónleikar Léttsveitarinnar
-
Kvenna megin
-
Aðalfundur Gígjunnar 2019
-
Mæðradagstónleikar Kvennakórs Akureyrar
-
Dívur – vortónleikar Kvennakórs Suðurnesja
-
Vortónleikar Kvennakórs Kópavogs