Heiðursviðurkenning 2013
Gróa María Þorvaldsdsdóttir, Kvennakór Kópavogs
Kvennakór Kópavogs tilnefnir Gróu Maríu Þorvaldsdóttur til heiðursviðurkenningar Gígjunnar 2013.
Gróa María er einn af stofnfélögum og hefur starfað með Kvennakór Kópavogs frá 2002. Hún hefur verið virk í starfi kórsins frá upphafi og setið í stjórn og ýmsum nefndum hans og ávallt leyst mál kórsins á farsælan hátt. Gróa María ber með sér léttleika og jákvæðni sem nýtist vel í kórstarfinu og hefur unnið ötullega að farsæld og framgangi hans. Hún er einnig ein af þeim konum sem alltaf eru boðnar og búnar til að koma til aðstoðar þegar krefjandi verkefni kalla á aukavinnu.
Gróa María var einn hugmyndasmiða að styrktartónleikunum Hönd í Hönd sem kórinn hefur haldið fyrir Mæðrastyrksnefnd Kópavogs undanfarin fjögur ár. Þetta árið verða fimmtu tónleikarnir haldnir 3. nóvember. Hugmyndin að þessum tónleikum var bág staða margra fjölskyldna í kjölfar bankahrunsins 2008. Vildu kórkonur finna vettvang til að styðja við bæjarbúa í því erfiða ástandi sem skapaðist þá. Á þessum árum hefur Kvennakór Kópavogs fengið til liðs við sig fjölmarga þekkta listamenn og hefur styrkur til Mæðrastyrksnefndarinnar verið álitlegur ár hvert. Það er ekki síst að þakka konum eins og Gróu Maríu en framlag hennar hefur haft mikil áhrif á hve vel heppnaðir þessir tónleikar hafa verið ár eftir ár.
Stjórn Kvennakórs Kópavogs vill þakka Gróu Maríu fyrir þá velvild og umhyggju sem hún sýnir samfélaginu og fórnfúst og gott starf fyrir kórinn sinn. Við viljum því leggja til að hún fái heiðursviðurkenningu Gígjunnar 2013.
Mynd: Anna Laxdal Þórólfsdóttir, formaður Gígjunnar, afhendir Gróu Maríu Þorvaldsdóttur heiðursviðurkenninguna.