Guðrún Ósk Sæmundsdóttir, Kvennakór Kópavogs
Kvennakór Kópavogs tilnefnir Guðrúnu Ósk Sæmundsdóttur - Rúnu.
Sumar manneskjur hafa eitthvað óútskýranlegt við sig, eru gleðigjafar sem lífga þannig upp á tilveruna að ef þær eru ekki nærri þá vantar eitthvað.
Í Kvennakór Kópavogs eru margar skemmtilegar og frábærar konur en hún Rúna okkar hefur þennan frábæra eiginleika og skiptir okkur kórsystur hennar og kórstarfið í heild sinni miklu. Hún í raun er stór hlekkur í stoðkerfi kórsins.
Rúna okkar er dásamleg og kemur okkur hinum alltaf öllum í gott skap með endalausu glensi sínu, athugasemdum og svipbrigðum. Alltaf fer hún fremst í flokki ef gera á eitthvað skemmtilegt, skvettist um og gerir endalaust grín að sjálfri sér sem hefur oft þær afleiðingar að allur kórinn endar í hláturskasti. Hún Rúna okkar er sú okkar sem tekur alltaf þemapartíin alla leið. Full ferðataska af hárkollum og búningum er tekin með í æfingabúðir og þar stekkur hún inn í gerfin eins og langlærður leikari og vekur alltaf mikla lukku fyrir.
Jákvæð er hún og alltaf til í að vinna fyrir kórinn, hún hefur setið í fleiri en einni stjórn og endalausum nefndum, ávallt viðbúin.
En til margra ára hefur hún einnig komið með "Rúnu söngte" á hverja æfingu. Rogast á hverja einustu æfingu með risa höldupoka af hitabrúsum sem innihalda göróttan engiferdrykk sem allar kórsysturnar (en við teljum hátt í 60) hópast um til að fá sopa af í æfingahléi. Þetta gerir hún allt af einskærri gleði og umhyggju fyrir okkur hinum.
Í kórum er mikilvægt að konur taki vel eftir á æfingum, mæti undirbúnar á æfingar, taki þátt í félagstarfi kórsins og svo framvegis. En í fjölbreyttum hópi frábærra kvenna leynast alltaf skrautfjaðrir og Rúna okkar er ein af þeim.
Við kórsystur Rúnu í Kvennakór Kópavogs erum alveg hreint endalaust þakklátar fyrir að fá að njóta samvista við hana í okkar frábæra kór. Því er það okkur mikill heiður og gleði að útnefna hana til heiðursviðurkenningar Gígjunnar.
Mynd: Guðrún Ósk Sæmundsdóttir ásamt Þórhildi Kristjánsdóttur, formanni Gígjunnar, sem afhenti henni heiðursviðurkenninguna.