Heiðursviðurkenning 2011
Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, Vox feminae
Kvennakórinn Vox feminae tilnefnir hér með Sigurbjörgu Aðalsteinsdóttur til heiðurstilnefningar Gígjunnar.
Sigurbjörg var í undirbúningshópi vegna stofnunar Kvennakórs Reykjavíkur og einn af stofnfélögum hans þegar kórinn var stofnaður árið 1993. Hún var ekki aðeins fyrsti formaður kórsins heldur kom að myndun hans, mótun og uppbyggingu. Þegar slitnaði upp úr samstarfi Kvennakórs Reykjavíkur og hans kóra árið 2000, hélt Vox feminae áfram starfi sínu sem sjálfstæður kór og var Sigurbjörg fyrsti formaður hans og sinnti því starfi ötullega í sex ár.
Þá starfaði Sigurbjörg í stjórn Gígjunnar á fyrstu starfsárum hennar og tók þannig þátt í að móta það mikilvæga starf sem Gígjan sinnir.
Sigurbjörg hefur alla tíð verið metnaðarfull og framsýn og unnið gríðargott starf í þágu uppbyggingar kvennakóramenningar landsins.
Sigurbjörg hefur komið að ýmsum verkefnum innan kórsins og nú síðast var hún annar ritstjóri ljósmynda- og sögubókar Vox feminae “da capo” þar sem saga kórsins er rakin í máli og myndum auk hugleiðinga kórfélaga um þýðingu söngs í lífi þeirra. Bókin er þannig mikilvæg heimild um íslenskan kvennakór sem stofnaður var á síðustu öld og á án efa eftir að varpa ljósi á þann raunveruleika sem við nú búum við. Við grípum hér niður í hugleiðingu Sigurbjargar um kvennakórssöng úr bókinni da capo:
Fyrir margar okkar er fyrsta minningin um kvennakór tengd Kramhúsinu og kórskóla Margrétar J. Pálmadóttur. Sú látlausa auglýsing um kórskóla fyrir konur sem birtist í Morgunblaðinu í janúar 1992 leiddi okkur á fund hennar, á vit söngs með öðrum konum, á vit þeirra ævintýra sem óhjákvæmilega fylgdu í kjölfarið.
Í minningunni sitjum við flötum beinum í æfingasal í kjallara Kramhússins, í stuttu hléi frá söngnum, og Margrét segir... karlakórar hafa sungið hér í sjötíu ár: Eigum við ekki að stofna kvennakór, er ekki kominn tími til þess að stofnaður sé Kvennakór Reykjavíkur?
Í mínum huga var þessi hugmynd stórkostleg en glöðust var ég þó yfir því trausti og virðingu sem mér fannst hún sýna okkur. Sjálf vissi ég varla að til væri fyrirbærið kvennakór, og á örskotsstundu og eins og fyrir töfra, varð líf mitt og okkar allra litað af því, samtvinnað því og verður aldrei eins aftur. Síðan hefur margt gerst, við höfum orðið hluti af mjög lifandi og vel skipulagðri kvennahreyfingu. Við höfum átt þátt í skapa þá hreyfingu og skrifa kafla í íslenskri kvennasögu og tónlistarsögu, því á tæpum tveimur áratugum margfaldast fjöldi kvennakóra um landið allt, þeir stofna landssamtök, fá tónskáld til að semja verk fyrir nákvæmlega það hljóðfæri og ekki önnur, og kvennakórar öðlast viðurkenningu sem listrænt hljóðfæri.
Allt hefur þetta gerst og er að gerast fyrir tilverknað Margrétar, og í samvinnu hennar og annarra kvenna, sem deila hugmyndum, metnaði, sameinuðum vilja til góðra verka, og umfram allt ást á samhljómi kvenna.
Allt þetta er veganesti á vit nýrra ævintýra.
Mynd: Aðalheiður Ósk Gunnarsdóttir, formaður Gígjunnar, afhendir Sigurbjörgu Aðalsteinsdóttur heiðursviðurkenningu.