Um Gígjuna

Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, var stofnað 5. apríl 2003. Markmið samtakanna er að efla starfsemi og samstarf kvennakóra, efla samskipti við kvennakóra erlendis og safna og miðla upplýsingum um starfsemi kvennakóra og öðrum upplýsingum sem þeim kæmu að gagni.

Á stofnfundinum 5. apríl 2003 gengu 17 kórar í sambandið: Freyjukórinn í Borgarfirði, Gospelsystur Reykjavíkur, Jórukórinn á Selfossi, Kvennakór Akureyrar, Kvennakór Bolungavíkur, Kvennakór Garðabæjar, Kvennakór Hafnarfjarðar, Kvennakór Hornafjarðar, Kvennakór Kópavogs, Kvennakór Reykjavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Kvennakórinn Ljósbrá, Kvennakórinn Norðurljós, Kvennakórinn Seljurnar, Kvennakórinn Ymur, Kyrjukórinn á Þorlákshöfn og Vox femine í Reykjavík. Í dag eru meðlimir þess á annað þúsund konur.

Markmiðum sínum hyggst Gígjan meðal annars ná með því að halda úti vefsetri þessu þar sem m.a. verða birtar heimildir um starfsemi aðildarkóranna, lög sambandsins, fundargerðir, fréttabréf, upplýsingar um útgáfu geisladiska, fréttir af tónleikum og öðrum uppákomum aðildarkóranna, tenglar á tónlistarvefi og ýmsar gagnlegar upplýsingar.

Aðdragandi að stofnun Gígjunnar

Textinn hér á eftir er tekinn úr ræðu Margrétar Bóasdóttur söngkonu og kórstjóra sem hún flutti á stofnfundi Gígjunnar 5. apríl 2003.

"Undirbúningsnefnd að stofnun Gígjunnar var skipuð í lok landsmótsins í Reykjanesbæ og sá Ingibjörg Guðjónsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar um að kalla okkur saman. Auk hennar voru í nefndinni Guðrún Karlsdóttir frá Kvennakór Suðurnesja, Kristín G. Ingimundardóttir Kvennakór Hafnarfjarðar, Þuríður Pétursdóttir Kvennakór Reykjavíkur, Stefán Þorleifsson, stjórnandi Kyrjukórsins í Þorlákshöfn og ég sem hér stend.

Stofnun þessara samtaka á sér nokkurn aðdraganda. Ef við hugsum aftur til síðustu aldar, fyrir 1990, þá voru ekki margir kvennakórar starfandi. Árið 1987 tek ég við stjórn Kvennakórsins Lissýjar, sem var starfræktur af Kvenfélagasambandi S-Þingeyinga og er mér í minni þegar Hólmfríður Benediktsdóttir sem hafði verið stjórnandi kórsins þau 2 ár sem hann hafði þá starfað, bað mig um að taka við, þar sem hún fór erlendis í framhaldsnám. Ég hugsaði: "ýmislegt hef ég nú gert, en að stjórna kvennakór"! Skemmst er frá því að segja að ég hef sjaldan gert neitt eins skemmtilegt eins og að stjórna þessum kór 60 kvenna á aldrinum 18-73 ára. Þegar að því kom árið 1992 að taka ákvörðun um að flytjast búferlum þá var söknuðurinn mestur yfir því að skilja við þennan kór.

Vorið 1992 kom fram sú hugmynd hjá okkur í kvennakórnum Lissý að halda landsmót kvennakóra. Við öfluðum okkur upplýsinga um hve margir kórar væru starfandi og það fundust 5 kórar. Þeir mættu allir til leiks í félagsheimilinu Ýdölum og voru þetta um 150 konur. Minnsti kórinn kom lengst að: Kvennakórinn Ljósbrá úr Rangárvallasýslu með 14 kórfélaga. Ári síðar fór ég á vortónleika þeirra á Hvolsvelli og þá höfðu þær snúið tölunni við – voru orðnar 41 og komnar með karlstjórnanda, sem stýrir nú öðrum konum, en er hér í dag og einn karla í undirbúningsnefndinni!

Árið 1995 stóð Kvennakór Reykjavíkur, þá rétt tveggja ára, fyrir næsta landsmóti og síðan hafa verið mót í Reykholti í Borgarfirði haustið 1997, í umsjá Freyjukórsins, haustið 1999 á Siglufirði í umsjá Kvennakórs Siglufjarðar og síðast í Reykjanesbæ vorið 2002 í umsjá Kvennakórs Suðurnesja. Alls eru þetta orðin 5 landsmót. Kvennakór Suðurnesja er nú elsti starfandi kvennakór landsins, formlega stofnaður árið 1968, en okkur telst til að nú starfi um 24 kvennakórar, en auðvitað misjafnlega atorkusamir eins og eðlilegt er. Í þessum kórum eru yfir 1000 söngkonur og hafa fjölmennustu kórarnir yfir 100 félaga og mjög margir hafa á bilinu 50-80 félaga. Þetta er alveg einstök gróska á rúmum 10 árum, ef mælt er frá vorinu 1992, en segja má að í Ýdölum hafi konurnar 150 verið 100% þátttaka. Það eru nú 17 kórar sem standa að stofnun landssambandsins og er það glæsileg þátttaka.

Á landsmótunum, en þar hef ég oftast haft þá ánægju að vera mótsstjóri- eða tímavörður, eins og ég hef stundum kallað það, hefur oft verið rætt um nauðsyn slíks landssambands. Það skortir tilfinnanlega vettvang þar sem hægt er að ganga að upplýsingum, eða leita eftir upplýsingum, vita hvaða kórar eru starfandi, finna nótur af tilteknum lögum og síðast en ekki síst, vera bakhjarl kóranna t.d. í sambandi við landsmótshald. Það er gífurleg vinna og mikil ábyrgð sem þeir kórar taka á sig sem hafa haldið landsmótin, og ég vil sérstaklega nefna hve frábærlega þeir hafa alltaf staðið sig á hverjum stað. En það er varla verjandi að enginn baktrygging sé, ef eitthvað færi úrskeiðis af náttúrunnar eða mannavöldum, og viðkomandi kór sæti uppi með fjárhagslegar skuldbindingar vegna skipulagningar.

Með stofnun landssamtakanna er settur bakhjarl við starfsemi kóranna og aukinn og bættur sá vettvangur sem hægt er að hafa samskipti á, bæði á netinu og ekki síður til að fá upplýsingar um hverja aðra, sem svo leiðir til heimsókna og samstarfs af ýmsu tagi.

Landssamtök eiga betri möguleika á styrkjaöflun en einstakir kórar og geta einnig verið kórunum til ráðuneytis um slíka hluti.

Nú er ekki ætlunin að sambandsstjórnin sé í fullri vinnu við að þjónusta kórana. Við skulum gera okkur fulla grein fyrir að þetta er aðeins þegnskylduvinna og ekki hægt að ætlast til ómældrar vinnu. En við í undirbúningsnefndinni gerum okkur vonir um að heimasíðan verði notuð og að þið verðið dugleg við að koma með tillögur og benda á efni sem hagnýtt er að hafa þar inni".

_______________

Ræða Margrétar Bóasdóttur er birt í heild sinni hér á vefsetri Gígjunnar í fundargerð frá stofnfundi Gígjunnar 5. apríl 2003.