Um Gígjuna
Gígjan, landssamband íslenskra kvennakóra, var stofnað 5. apríl 2003. Markmið samtakanna er að efla starfsemi og samstarf kvennakóra, efla samskipti við kvennakóra erlendis og safna og miðla upplýsingum um starfsemi kvennakóra og öðrum upplýsingum sem þeim kæmu að gagni.
Á stofnfundinum 5. apríl 2003 gengu 17 kórar í sambandið: Freyjukórinn í Borgarfirði, Gospelsystur Reykjavíkur, Jórukórinn á Selfossi, Kvennakór Akureyrar, Kvennakór Bolungavíkur, Kvennakór Garðabæjar, Kvennakór Hafnarfjarðar, Kvennakór Hornafjarðar, Kvennakór Kópavogs, Kvennakór Reykjavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Kvennakórinn Ljósbrá, Kvennakórinn Norðurljós, Kvennakórinn Seljurnar, Kvennakórinn Ymur, Kyrjukórinn á Þorlákshöfn og Vox femine í Reykjavík. Í dag eru meðlimir þess á annað þúsund konur.
Aðdragandi að stofnun Gígjunnar
"Undirbúningsnefnd að stofnun Gígjunnar var skipuð í lok landsmótsins í Reykjanesbæ og sá Ingibjörg Guðjónsdóttir, stjórnandi Kvennakórs Garðabæjar um að kalla okkur saman. Auk hennar voru í nefndinni Guðrún Karlsdóttir frá Kvennakór Suðurnesja, Kristín G. Ingimundardóttir Kvennakór Hafnarfjarðar, Þuríður Pétursdóttir Kvennakór Reykjavíkur, Stefán Þorleifsson, stjórnandi Kyrjukórsins í Þorlákshöfn og ég sem hér stend.
Vorið 1992 kom fram sú hugmynd hjá okkur í kvennakórnum Lissý að halda landsmót kvennakóra. Við öfluðum okkur upplýsinga um hve margir kórar væru starfandi og það fundust 5 kórar. Þeir mættu allir til leiks í félagsheimilinu Ýdölum og voru þetta um 150 konur. Minnsti kórinn kom lengst að: Kvennakórinn Ljósbrá úr Rangárvallasýslu með 14 kórfélaga. Ári síðar fór ég á vortónleika þeirra á Hvolsvelli og þá höfðu þær snúið tölunni við – voru orðnar 41 og komnar með karlstjórnanda, sem stýrir nú öðrum konum, en er hér í dag og einn karla í undirbúningsnefndinni!
Á landsmótunum, en þar hef ég oftast haft þá ánægju að vera mótsstjóri- eða tímavörður, eins og ég hef stundum kallað það, hefur oft verið rætt um nauðsyn slíks landssambands. Það skortir tilfinnanlega vettvang þar sem hægt er að ganga að upplýsingum, eða leita eftir upplýsingum, vita hvaða kórar eru starfandi, finna nótur af tilteknum lögum og síðast en ekki síst, vera bakhjarl kóranna t.d. í sambandi við landsmótshald. Það er gífurleg vinna og mikil ábyrgð sem þeir kórar taka á sig sem hafa haldið landsmótin, og ég vil sérstaklega nefna hve frábærlega þeir hafa alltaf staðið sig á hverjum stað. En það er varla verjandi að enginn baktrygging sé, ef eitthvað færi úrskeiðis af náttúrunnar eða mannavöldum, og viðkomandi kór sæti uppi með fjárhagslegar skuldbindingar vegna skipulagningar.
Landssamtök eiga betri möguleika á styrkjaöflun en einstakir kórar og geta einnig verið kórunum til ráðuneytis um slíka hluti.
_______________