Stofnfundurinn

Þær stofnuðu Landssamband íslenskra kvennakóra.
Eftirfarandi grein birtist í DV þriðjudaginn 8. apríl 2003
Landssamband íslenskra kvennakóra stofnað:
Kvennakórarnir eru nýtt afl

Á laugardaginn var stofnað Landssamband íslenskra kvennakóra - Gígjan - á Grand Hótel í Reykjavík. Stofnfélagar eru 17 kórar hvaðanæva af landinu með rétt tæplega 800 starfandi konum. Vitað er um rúmlega 20 kvennakóra á landinu en starfsemin er misjafnlega öflug - auk þess sem einn kór er svo nýr að aðstandendur fundarins vissu ekki af honum fyrr en um seinan. Þetta er kvennakórinn Embla sem hélt sína fyrstu tónleika sama daginn og sambandið var stofnað. "Það var falleg stofngjöf, þó að við vissum ekki af henni fyrr en eftir á," segir Margrét Bóasdóttir, söngkona og kórstjóri.

Kvennakórarnir eru misstórir, sumir rétt rúmlega saumaklúbbar en aðrir með um eða yfir 100 félaga. "Enn þá merkilegra er að mjög margir eru með á bilinu 50-80 konur," segir Margrét, "og þótt ótrúlegt sé hefur þetta allt gerst á rúmlega áratug!"

- Voru kvennakórar ekki til fyrr?

"Ekki sem afl," segir Margrét. "Elsti starfandi kvennakór landsins er Kvennakór Suðurnesja sem var stofnaður 1968 og gaman að segja frá því að fyrsti formaður nýja Sambandsins, Guðrún Karítas Karlsdóttir, er félagi í honum."

Forsaga málsins er á þá leið að þegar Margrét Bóasdóttir fluttist norður í Þingeyjarsýslu 1987 var hún beðin að taka að sér Kvennakórinn Lissý sem þá hafði starfað í tvö ár. Sá kór taldi brátt 60 konur og starfaði af miklum myndarbrag. Þær gáfu út disk, fóru í söngferðir til útlanda og héldu fjölda tónleika.

"Árið 1992 fannst okkur kominn tími til að kvennakórar héldu landsmót eins og aðrir og fórum að leita. Við fundum 5 kóra og allir félagar í þeim, 150 konur, komu norður í maí það ár. Minnsti kórinn lengst að, Ljósbrá úr Rangárvallasýslu, þær voru þá 14 en á vortónleikum ári seinna höfðu þær snúið tölunni við og voru orðnar 41! Það ár, 1993, var Kvennakór Reykjavíkur stofnaður og þá urðu vatnaskil í starfssemi kvennakóra. Það varð strax mikil starfsemi í kringum hann og stjórnandann, Margréti Pálmadóttur. Hópurinn varð geysistór og greindist fljótlega í marga smærri hópa þannig að þetta varð eins og móðir með unga sína."

Hlutverk Landssambandsins nýja verður fyrst og fremst að standa við bakið á kórunum, bæði þegar landsmót eru haldin á þriggja ára fresti og við að veita upplýsingum milli þeirra á heimasíðu á slóðinni tonlist.net/kvennakorar.

"Munurinn á karlakórum og kvennakórum er sá," segir Margrét, "að karlakórarnir, sem standa á gömlum merg, berjast margir fyrir lífi sínu og reyna að laða unga menn til liðs við sig. En kvennakórarnir eru upp til hópa settir saman af ungum konum, þeir eru nýtt afl. Til dæmis var Kvennakór Akureyrar stofnaður á síðasta ári með 70 konum og engin þeirra hafði verið í kór áður.

- Af hverju slær kórsöngur svona í gegn hjá konum núna?

"Ja, söngur er alltaf smitandi," segir Margrét og hlær við. "Það er líka læknisfræðilega sannað að við söng framleiðir heilinn endorfin, gleðigjafann sem er besta ráðið við þunglyndi, þannig að það er þjóðhagslega hagkvæmt að sem flestir syngi í kórum. Þessi mikli og hraði vöxtur er merkilegur bæði í tónlistarsögu landsins og menningarsögu almennt."

-SA

Textinn við myndina er:
Þær stofnuðu Landssamband íslenskra kvennakóra. Fulltrúar 17 kvennakóra af öllu landinu hittust á Grand Hótel á laugardaginn.