KVENNAKÓRAR frumfluttu í gær nýtt jólalag eftir Jón Ásgeirsson tónskáld í átta kirkjum víðsvegar um landið.

KVENNAKÓRAR frumfluttu í gær nýtt jólalag eftir Jón Ásgeirsson tónskáld í átta kirkjum víðsvegar um landið. Lagið samdi Jón við ljóð eftir Snorra Hjartarson, „Ég heyrði þau nálgast“, að ósk kvennakóra landsins, í tilefni áttræðisafmælis hans 11. október sl.

Mikil gróska er í starfi kvennakóranna í landinu. Nú eru 28 kórar starfandi, með á annað þúsund félaga. Gígjan, landssamband kvennakóra, stofnaði tónverkasjóð fyrir skömmu. Honum er ætlað að efla og styrkja kvennakóra, meðal annars með því að fá tónskáld til að semja tónverk fyrir kórana. Jólalag Jóns Ásgeirssonar er fyrsta verkið sem tónverkasjóðurinn kostar.

Kvennakórarnir fluttu lagið í gær í Ytri-Njarðvíkurkirkju, Kópavogskirkju, Vídalínskirkju kl. 11 og kl. 20, Fríkirkjunni í Hafnarfirði, Bústaðakirkju, Breiðholtskirkju og Seljakirkju. Tónskáldið var viðstatt þegar Kvennakór Reykjavíkur söng lagið í Breiðholtskirkju.